Á ferð um Fljótsdalshérað


Vegna framkvæmda í vesturíbúðinni i kjallaranum hjá okkur vissum við Guðrún að sumarið 2016 yrði aldrei sumar mikilla ferðalaga. Sumarið urðum við nefnilega að nýta í framkvæmdirnar. Við ákváðum samt gleyma framkvæmdabrasinu um stund og verja einni viku með Guðrúnu móður minni, Jennu systur og Lilju dóttur okkar austur á Fljótsdalshéraði. Bústaðurinn er í landi Einarsstaða sem eru staðsettir fyrir miðjum Leginum og þaðan tekur um það bil tíu mínútur að aka niður að Egilsstöðum. Í eina tíð voru Einarsstaðir leigujörð út frá jörðinni Eyjólfsstaðir. Í dag er enginn búskapur að Einarsstöðum en í skógi vaxinni hlíðinni er fjöldi bústaða í eigu ýmissa félagasamtaka. Bústaðurinn sem við dvöldum í þessa viku var númer 24 og er í eigu stéttarfélagsins Eflingar.
Við lögðum af stað úr bænum klukkan hálf tíu um morguninn föstudaginn 1. júlí. Framundan var rúmlega tíu klukkustunda ferðalag þannig að við hefðum eiginlega átt að leggja fyrr af stað. Á leiðinni stoppuðum við hér og þar til að teygja úr okkur. Meðal annars skoðuðum við Seljalandsfoss og Jökulsárlón. Staðir sem við höfum séð áður en við urðum lostin furðu yfir breytingunum. Seljalandsfoss var svo sem samur við sig en Jökulsárlón hafði tekið miklum breytingum. Jökullinn hefur hopað og lónið er mun stærra en þegar við vorum á þessum slóðum síðast. Það voru samt ekki breytingar á náttúrufari sem ollu furðu okkar. Það var þessi gríðarlegi fjöldi fólks sem þarna var. Ég get svo svarið það að við lentum í vandræðum með að finna stæði fyrir bílana, bæði við fossinn og lónið. Síðast þegar við vorum þarna að sumri til var hugsanlega einn annar bíll á svæðinu eða jafnvel enginn. Þarna var skýringin komin á því hvers vegna við fundum ekki gistingu á leiðinni til baka. Við héldum samt að við værum að sýna fyrirhyggju með því að panta hana í apríl. Ætli maður þurfi á endanum að fá sér fellihýsi til að vera tryggur með gistingu á ferðalagi um landið?

Laugardagurinn rann upp með ágætis veðri. Við Guðrún fengum okkur morgungöngu inn í Eyjólfsstaðarskóg en hann er rétt ofan við bústaðasvæðið til norðausturs. Skógurinn er einir 172 hektarar að stærð og samanstendur mestmegnis af lágvöxnum birkitrjám. Í skóginum má þó finna 6 – 8 metra há beinvaxin birkitré. Fyrstu trén sem voru gróðursett í skóginum voru sett í jörð árið 1949 en flest trén voru gróðursett á milli 1959 – 1974. Alls voru 74 þúsund plöntur gróðursettar í 11 hektara land af 14 mismunandi tegundum. Á göngu okkar um skóginn sáum við Guðrún mikið af einivið sem er eina barrtréð sem vex villt í þessu landi.
Myndin lýsir ágætlega ástandinu eins og það er á helstu ferðamannastöðum. Vart verður þverfótað fyrir fólki. Hér sitja asískir ferðamenn við Jökulsárlón og njóta útsýnisins.
Eyjólsfsstaðarskógur ber þess vitni hvaða árangri er hægt að ná í skógrækt á Íslandi.
Þegar aðrir ferðafélagar voru komnir á ról ákváðum við að skoða Austfirðina sunnan Mjóafjarðar. Með í för var Íslandshandbókin góða sem við hjónin keyptum á afborgunum í upphafi búskapartíðar okkar. Frá því að bókin sú var gefin út hefur ýmislegt breyst á þessu svæði. Landslagið er auðvitað hið sama en með tilkomu álvers og aukinnar ferðaþjónustu hafa þéttbýliskjarnarnir breyst.

Fyrsta kauptúnið sem við komum að var Stöðvafjörður þar sem Steinasafn Petru er staðsett. Konunum langaði að skoða það en því miður auðnaðist okkur ekki að hitta á heppilegan tíma til þess. Fyrir þrjátíu árum síðan bjuggu 357 manns á Stöðvarfirði en í dag búa þar 197 manns. Þorpið í Fáskrúðsfirði heitir Búðir. Þar bjuggu 762 þegar Íslandshandbókin var skrifuð en í dag búa þar 672. Á Reyðafirði bjuggu 730 manns en í dag búa 1188 þar. Álverið er skýringin á fjölguninni þarna og væntanlega einnig á Eskifirði en þar bjuggu 1092 en í dag búa 1112 þar. Íbúum á Neskaupsstað hefur fækkað til muna því þar bjuggu 1714 en í dag eru íbúar þar 1481. Á Egilsstöðum bjuggu 1380 íbúar en þeir eru orðnir 2300. Handan brúarinnar yfir Lagarfljót er Fellabær en þar hefur einnig fjölgað. Íbúar voru 264 en eru í dag um 400. Allir þessir þéttbýliskjarnar tilheyra Fjarðabyggð og byggðust þeir upp að undanskildum Egilsstöðum og Fellabæ vegna aukins sjávarútvegs í upphaf i 19. aldar. Egilsstaðir og væntanlega Fellabær einnig byggðust upp eftir 1940 vegna þess að þörf fyrir þjónustu jókst.
Á myndinni erum við hjónin í góðu yfirlæti á veitingastaðnum sem Guðrún dró okkur á.
Á myndinni til hægri eru Lilja, Jenna, Guðrún og Guðrún við útsýnisskýfuna sem er rétt utan við þorpið á Neskaupsstað.
Við fengum ágætis veður á þessari ferð okkar um firðina. Stoppuðum hér og þar til að njóta útsýnisins. Guðrún hafði spurnir af nýstárlegu veitingahúsi þegar hún dvaldist á Eskifirði við kennslu í vetur. Það veitingahús var sett upp í gamalli verbúð og höfðu eigendur lítið breytt verbúðinni þannig að þetta var eins og að borða á safni. Við ákváðum að stoppa þar, fá okkur köku og kaffi. Við skoðuðum síðan myndina hans Balthasar á Eskifirði og kirkjuna. Við ókum bara í gegnum hin þorpin en stoppuðum aðeins við litla bátinn á Neskaupsstað og keyrðum út að útsýnisskífunni við norðurenda þorpsins. Í þessum þorpum þekkjum við ekki nokkurn mann en Lilja kynntist þó stúlku úti á Spáni en hún býr á Neskaupsstað. Lilja sendi henni skilaboð um að hún væri stödd á Neskaupsstað og fékk svar um hæl. ,,Hvað er þú að gera hér?“ Eins og það sé stórfurðulegt hátterni að vera að þvælast á Neskaupsstað.
Eskifjörður í alli sinni dýrð. Sjá má glitta í þorpið lengst til hægri á myndinni. Myndin er tekin þegar komið er út úr göngunum í gegnum Oddskarðið.
Það spáði rigningu á sunnudeginum þannig að við ákváðum að taka það rólega þann dag. Gerðum okkur ferð í Hallormsstaðarskóg. Eflaust þykir mörgum útlendingunum lítt markvert þótt einhverjar trjáhríslur vaxi á 740 hekturum en fyrir íslenska áhugamenn um skógrækt er þessi stærsti skógur landsins stórmerkilegur. Hann er til vitnis um það hvernig landið gæti litið út hefði gróðurinn fengið frið til að dafna. Hallormsstaðarskógur var friðaður árið 1905 og síðan þá hafa verið góðursettar 85 tegundir trjáa í skóginum frá 600 stöðum í heiminum. Í dag eru stærstu trén vel yfir 20 metra há.

Guðrún og Ingibjörg Lilja með Héraðsflóann í baksýn.Guðrún og Ingibjörg Lilja með Héraðsflóann í baksýn. Að morgni mánudagsins 4. júlí fórum ég, Lilja og Guðrún inn í Skriðdal og könnuðum veiði í Skriðuvatni og Haugatjörnum. Okkur varð lítið ágengt en Lilja náði þó að landa sínum fyrsta flugufiski sem hún átti alla leið. Allt frá kasti til löndunar. Fiskurinn sá var ósköp smár en stóru fiskarnir eru ekki alltaf merkilegustu fiskarnir. Að loknum hádegisverði ókum við yfir Fjarðarheiði á Seyðisfjörð þar sem Kristján maður Imbu ólst upp. Seyðisfjörður er fallegur bær. Íbúar eru í dag 668 en voru 996 þegar við Guðrún vorum hér síðast á ferð. Blámáluð kirkjan og snyrtileg timburhús vöktu athygli okkar. Eins og svo mörg sjávarþorp á Íslandi er það umlukið háum fjöllum. Mest þeirra eru Strandatindur austan fjarðar og Bjólfur að vestan. Fjallið Bjólfur er kennt við landnámsmanninn Bjólf sem nam allan fjörðinn. Upphaf kaupstaðarins má rekja til ársins 1848 þegar norskir fiskimenn byggðu fyrstu tréhúsinn. Sum þeirra standa enn.
Höfundur frásagnarinnar undir voldugu grenitré í Hallormsstaðaskógi.
Guðrún og Ingibjörg Lilja með Héraðsflóann í baksýn.
Héraðsflóinn séður frá Hellisheiði.
Lögurinn var spegilsléttur og himinn heiður og tær þegar við ókum yfir fljótið og héldum norður með Jökulsá á Brú. Í austri blöstu Dyrfjöllinn við í fjarskanum. Þegar upp á Hellisheiði var komið var sýnin yfir Héraðsflóann hreint stórkostleg. Ferðinni var heitið á Vopnafjörð og síðan upp með Hofsá í Vesturdal að Burstafelli en þar er gamli bærinn til sýnis og ýmislegt úr sögu fjölskyldunnar sem á bænum hefur búið síðan 1532.

Guðrún við Strandlengjuna í Skjólförum. Drangurinn sem líkist fíl er greinilegur fyrir aftan hana.Guðrún við Strandlengjuna í Skjólförum. Drangurinn sem líkist fíl er greinilegur fyrir aftan hana. Stuttu eftir að við komum niður af Hellisheiðinni bar okkur að Skjólfjörum. Í fjörunni og sjónum utan við eru skemmtilegir klettadrangar. Einn þeirra heitir Ljósistapi og minnir óneitanlega á fíl sem stefnir upp i fjöruna. Næsta stopp var Drangsnes þar sem Gljúfurá rennur til hafs. Fossinn ber nafn af ánni og heitir Gljúfurárfoss. Á Vopnafirði skoðuðum við Múlasafn þar sem bræðranna Jóns Múla og Jónasar Árnasona er minnst. Frá Vopnafirði ókum við að Burstafelli. Torfbærinn á Burstafelli á sé aldagamla sögu. Hann hefur í aldanna rás tekið breytingum vegna þess að byggt var við hann eftir þörfum. Elsti hluti bæjarins er frá 1769. Það er athyglisvert að skoða eldhúsin þrjú sem í bænum eru því þau vitna um verkhætti þess tíma sem þau voru í notkun. Elst er hlóðaeldhúsið, síðan kemur kolaeldavél í baðstofuhorni og að lokum nýtísku eldhús sem steypt var upp árið 1944.
Guðrún við Strandlengjuna í Skjólförum. Drangurinn sem líkist fíl er greinilegur fyrir aftan hana.
Gamli bærinn að Burstafelli.
Daginn eftir skoðuðum við rústir Skriðuklausturs sem byggt var í lok 15. aldar og húsið sem Gunnar Gunnarsson rithöfundur byggði ofan við rústirnar árið 1939. Hús Gunnars er til vitnis um mikinn stórhug skáldsins. Draumur hans var að þar yrði rekinn stórbúskapur að evrópskri fyrirmynd. Þessi áform Gunnars gengu ekki eftir og gafst hann upp á þessu brölti og gaf íslenska ríkinu húsið árið 1948. Í Gunnarshúsi fengum við góða leiðsögn frá henni Skottu. Guðrún fór í kunnugleg spor móður sinnar þegar hún innti leiðsögumanninn hvort hún væri ekki dóttir Valda sem bjó í Króki um stund eftir að fjölskylda Guðrúnar hætti að búa þar. Henni fannst leiðsögumaðurinn nefnilega bera sterkan svip ætternisins.

Skriðuklaustur. Klaustrið var neðan við hæðina sem húsið hans Gunnars stendur á.Skriðuklaustur. Klaustrið var neðan við hæðina sem húsið hans Gunnars stendur á. Skammt frá húsi Gunnars er Snæfellsstofa sem er upplýsingamiðstöð fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Allt þetta var bráðskemmtilegt að skoða enda upplýsingamiðstöðin vel upp sett og vel tekið á móti gestum. Um kvöldið reyndum við Guðrún og Lilja að veiða í Urriðavatni. Við náðum að landa fjórum litlum bleikjum en svo undarlegt sem það er þá eru eingöngu bleikjur í Urriðavatni.

fljotsdalsherad13Skriðuklaustur. Klaustrið var neðan við hæðina sem húsið hans Gunnars stendur á.
Mjóifjörður og Dalatangi voru þeir staðir sem við ætluðum að skoða síðasta heila daginn okkar á Fljótsdalshéraði. Fjörðurinn er þröngur og mjór með snarbrött fjöll til sitt hvorrar handar og býður ekki upp á mikinn búskap því undirlendi er lítið. Þegar komið er niður af Mjóafjarðarheiði stoppuðum við hjá Klifurbrekkufossum og lögðumst í myndatökur. Fyrir miðjum firðinum er Brekkuþorp sem er lítið fiskiþorp. Þar fengum við okkur þurra skúffuköku með rjóma og kaffi í Sólbrekku áður en við héldum áfram för út fjörðinn. Þar uppgötvaði ég að bíllyklarnir mínir voru ekki lengur í vasanum. Mig grunaði að lyklarnir hefðu dottið úr vasanum þar sem ég lá í grasinu við myndatökurnar. Ofan við Brekkuþorp er bærinn Brekka þar sem Vilhjálmur fyrrverandi menntamálaráðherra átti heima.
Áfram ókum við út fjörðinn og út á Dalatanga sem er á milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar. Á tanganum eru tveir vitar. Sá eldri var byggður árið 1895 af Otto Whatne en yngri vitinn var byggður árið 1908 og er hann enn í notkun. Guðrún var mjög áfram um að við fengjum að skoða vitann og bankaði upp á hjá vitaverðinum. Vitaverðinum þótti sjálfsagt að við fengjum að sjá inni í vitann og kom á fjórhjóli ásamt hundi og ungum dreng frá Þýskalandi. Hún gaf sér góðan tíma með okkur og upplýsti okkur að samkvæmt lögum var eitt af skylduverkum vitavarða að sýna vitann. Við höfðum heilmikla ánægju af þessari ferð og lofthrædd móðir mín lagði það á sig að klifra upp í vitann. Ég held að þessi lofthræðsla móður minnar sé nú orðum aukin því Guðrún lagði ekki á sig að klöngrast þarna upp vegna lofthræðslu. Það var eins og mig grunaði. Bíllyklarnir fundust á milli þúfna við bláklukkuna sem ég var að reyna að taka mynd af.
Rétt fyrir fyrra stríð voru miklir framgangstímar á Íslandi. Lífskjör fóru batnandi og samfélagið var að taka miklum breytingum. Vitarnir á Dalatanga eru til vitnis um framfarirnar. Myndin til vinstri er af eldri vitanum. Myndin til hægri er af Lilju þar sem hún situr með heitt elskaðan Samsung símann sinn og freistar þess að ná mynd af sjófuglinum fljúga hjá. Ótrúlegt en satt en hún náði stórgóðri mynd á símann.
Nú var komið að lokum þessarar ágætu viku á Austurlandi. Suðurferðin var jafn löng og ferðin norður. Ókum heldur stífar en á norðurleiðinni. Við gáfum okkur samt góðan tíma í fjörunni við Reynisdranga. Eins og við var að búast var þar ógurlegur fjöldi ferðamanna. Það er af sem áður var þegar maður sprangaði einn um þessar fjörur og naut þess að sjá fjöruna, fjöllin og náttúruna. Þessari viku var vel varið og eiginlega nauðsynleg fyrir okkur því gott var að að gleyma öllum verkefnunum sem biðu heima.

Bíllyklarnir fundust á milli þúfa hjá bláklukkunni á bakaleiðinni. Í baksýn eru Klifurbrekkufossar.Bíllyklarnir fundust á milli þúfa hjá bláklukkunni á bakaleiðinni. Í baksýn eru Klifurbrekkufossar.