Róm - borgin á hæðunum sjö

Fyrri hluti

Guðrún varð fimmtug í sumarbyrjun og af því tilefni ákváðum við hjónin að bregða okkur í haustferð til Rómar - borgarinnar á hæðunum sjö. Öllum haustverkum í vinnunni var lokið og verktakarnir sem höfðu verið að tjasla bakgarðinum hjá okkur saman eftir raskið sem drenvinnan frá sumrinu 2016 hafði valdið voru á braut. Við gátum verið fullkomlega afslöppuð og látið okkur hlakka til ferðarinnar. Hér er fyrri hluti frásagnar af ferðalaginu.
Skömmu fyrir flugið fengum við póst frá Ryanair, flugfélaginu sem átti að fljúga með okkur á milli Brussel og Róm. Flugin voru felld niður! Nú voru góð ráð dýr og fram á nótt að leituðum við að nýju flugi á milli borganna. Á endanum fannst flug með Brussel air en það var margfalt dýrara en flugið sem fellt var niður. Það flugfélag hefur auðvitað séð sér leik á borði. Jæja, fall veit á gott og er fararheill hugsuðum og héldum út á völl sólarhring síðar. Við lögðum heldur seint af stað. Við Smáralindina í Kópavoginum áttuðum við okkur á að ég hafði auðvitað gleymt símanum svo við snerum við. Þurftum fyrir bragðið að flýta okkur enn frekar. Klukkan 6:50 fórum við síðan í loftið með Wow air. Fluginu seinkaði um 35 mínútur en sem betur fer var ágætis bið á milli véla á flugvellinum í Brussel og þann tíma þurftum við að nýta því töskuna mína var hvergi að finna. Flugum síðan frá Belgíu í eldgamalli Airbus vél og lentum mjúklega á Fiumicino flugvellinum í Róm.

Vatnslitamynd sem við keyptum af einhverjum götulistamanninum.

Trajan súlan rís 38,4 metra upp í loftið og segir sögu Trajan stríðanna sem voru háð rétt eftir árið 100. Vinstra megin er Ulpia basilikan.

Við hjónin vorum nú ekki að hitta Ítalina í fyrsta sinn því árið 1987 fengum við að kynnast gestrisni þeirra. Eftir tveggja daga kynni þóttist ég vita að Ítalir væru lítils trausts verðir, hégómafullir og jafnvel svikulir. Já svona einfaldur getur maður verið. Alhæfir um 59 milljón manna þjóð út frá örstuttum kynnum. Núna, þrjátíu árum síðar eru við hjónin aftur komin til Ítalíu. Ég býst auðvitað við hinu versta enda markaður af fyrri kynnum. Ég ætlaði nú samt að gefa Rómarbúum tækifæri til að bæta þá ímynd sem ég hafði af þjóðinni.

Þetta byrjaði ágætlega. Það var vel tekið á móti okkur á Hótel Medici sem er skammt frá basilikunni Santa Maria degli Angeli e dei Martiri þaðan sem við tókum oftast neðanjarðarlestina í miðbæinn. Hótelið stendur við Via Flavia sem er gata nefnd eftir keisurum Flavia ættarinnar. Keisararnir af þessari ætt voru þrír. Fyrstur þeirra var Vespasian sem ríkti í tíu ár frá 69 eftir krist til 79 eftir Krist. Sonur hans Títus er sennilega þekktastur af þeim þrem þótt hann hafi ekki ríkt nema í tvö ár. Títusarboginn heldur minningu hans á lofti. Boginn stendur enn í Róm og minnir á þegar Títus hertók Jerúsalem þegar hann var hershöfðingi í stjórnartíð föður síns. Á þeim tveim árum sem hann var keisari lenti Títus í tómu brasi. Vesúvíus gaus árið 79 með þeim hörmungum sem því gosi fylgdu og mikill eldsvoði varð í Róm. Í kjölfarið sætti hann gagnrýni og tók það svo á hann að hann reyndi að fremja sjálfsvíg. Ekki gekk það hjá honum en hitasótt sem hann fékk árið 81 leysti hann frá þessari jarðvist. Yngri bróðir hans Domitian tók við. Hann ríkti í 15 ár og var vinsæll meðal alþýðu og hers en þingið lét illa við hann. Árið 96 eftir Krist var hann síðan myrtur.

Santa Maria degli Angeli kirkjan er í ævafornu húsnæði sem upphaflega hýsti rómversk böð. Framan við kirkjuna er einn af ótal mörgum gosbrunnum Rómarborgar. Rústir baðhússins eru hægra megin við kirkjuna.

Fremst á myndinni er gosbrunnurinn sem Bernini eldri hannaði. Sagan segir að hugmyndin að bátnum sér fengin frá þjóðsögu af sökkvandi bát sem flaut nákvæmlega á þennan stað á 16. öld. Hægra megin við tröpp-urnar er húsið sem rómantíska skáldið John Keats lifði og dó í árið 1821. Í dag er safn helgað minningu hans í húsinu.

Santa Maria degli Angeli kirkjan var steinsnar frá Medici hótelinu þannig að hún varð okkar fyrsti áfangastaður í skoðunarferðum okkar í borginni. Kirkja þessi er ein af ríflega 900 kirkjum í þessari fornu borg. Píus IV páfi stóð fyrir byggingu kirkjunnar og fékk hann Michelangelo til að hanna hana. Kirkjan varð síðasta verk Michelangelos enda var karlinn orðinn 86 ára. Kirkjan var byggð þar sem rústir Diocletian baðanna eru en þau byggðu Rómverjar á árunum 298 – 306 eftir Krist. Í garðinum þar sem böðin eru átti ég langt og „innihaldsríkt“ samtal við einhvern Indverja sem vinnur í tapað fundið þjónustu hjá Wow air. Indverjinn, sannfærður um ágæti ensku sinnar, talaði svo hratt að mín eyru heyrðu ekki orðaskil, aðeins suð. Hjá mér fékk Indverjinn góð ráð um hversu hratt hann ætti að tala ef hann vildi að einhver skyldi hann. Hann gat ekkert sagt mér um afdrif farangurs míns.

Næsti áfangastaður voru spænsku þrepin sem eru einnig stutt frá hótelinu. Þau voru byggð á árunum 1723 – 1725. Þrepunum var ætlað að vera táknræn fyrir samband Frakka sem áttu Trinità dei Monti kirkjuna sem stendur á hæðinni fyrir ofan torgið sem er neðan við tröppurnar. Torgið kallast spænska torgið því við það stóð sendiráð Spánverja. Á þessum árum var samband Frakka og Spánverja með ágætum. Á torginu fyrir neðan tröppurnar er fallegur gosbrunnur, Fontana della Barcaccia. Einn af mörgum í borginni. Bernini hannaði brunninn. Ekki þó sá Bernini sem frægastur er því það er faðir hans sem á heiðurinn af þessum gosbrunni. Við gengum upp þrepin 135 og aftur niður og stefndum síðan á verslunargöturnar sem liggja út frá torginu. Það þurfti að redda einhverjum nauðsynjum vegna töskutapsins. Að þeim útréttingum loknum skoðuðum við Leonardo da Vinci safn sem stendur við Populus torgið. Safnið var svo sem ekkert merkilegt en endurreisnarmaðurinn Leonardo da Vinci er hreint ótrúlegur. Sennilega hefur hann verið sérvitrari en andskotinn en honum hefur fyrirgefist sérviskan vegna ótrúlegra hæfileika sem hann bjó yfir. Fæddur árið 1452 og dáinn 1519. Þekktastur er hann sem málari og tvö af þekktustu málverkum heimsins eru eftir hann. Mona Lisa og Síðasta kvöldmáltíðin. Þau eru ekki mörg listaverkin sem hann lauk við á æfiferli sínum enda hefur maðurinn sífellt verið upptekinn við alls kyns vísindalegt grúsk. Eftir hann liggur ógrynni skissa af tækjum og tólum sem flest voru aldrei smíðuð.

Á Leonardo safninu gat maður séð tæki Leonardos smíðuð úr tré, teikningar af þeim og lýsingar á notagildi þeirra.

Ein af skissubókum Leandros.

Um kvöldið þennan fyrsta dag dvalar í Róm kynntumst við rómaðri matarmenningu Ítala. Rómaðri segi ég því hugmyndir mínar um Ítalskan mat voru allt aðrar en þær sem ég hafði um Ítalina sjálfa. Jæja, veitingastaðnum Taverna Flavia tókst að breyta hugmyndum mínum um Ítalska matargerð. Á ferðum okkar höfum við sjaldan ef nokkru sinni fengið jafn lélegan mat. Maður lifandi hvað þetta var lélegt. Þarna mættum við síðan Ítalanum eins og ég taldi mig þekkja hann því til viðbótar því að bera fram mat sem var til háborinnar skammar reyndu þjónarnir að svindla á okkur. Það eina sem hægt er að færa fram sem málsvörn fyrir þennan veitingastað er að flestir veitingastaðirnir í Rómarferð okkar hjóna voru frámunalega lélegir.

 Rom 7Vatikanið á gríðarlegt safn listmuna. Þar á meðal er þessi bronsstytta af Herkúles. Bronsstyttur voru algengar en flestar þeirra voru því miður bræddar og málmurinn nýttur í vopn. Saga evrópu er mörkuð af stríðsátökum.Föstudagur og fram undan er annar af tveim hápunktum ferðarinnar. Vatikanið var í eina tíð ein valdamesta stofnun evrópu. Árið 1929 var Vatikanið viðurkennt sem sérstakt ríki og skipar þann sess að vera minnsta ríki heims. Það búa 920 íbúar á tæplega hálfum ferkílómetra. Í miðju þess stendur óumdeilanlega stærsta kirkja heims, Basilika heilags Péturs sem hvílir í gröf sinni undir kirkjunni. Bygging kirkjunnar hófst á fjórðu öld eftir Krist og endurbyggð á 16. öld. Yfirleitt höfum við ekki látið glepjast af sölumönnum við svona ferðamannastaði en að þessu sinni keyptum við viðbót við miðann sem við áttum í Vatikan safnið og Sixtínsku kapelluna. Fengum þess vegna leiðsögn um svæðið og það var bara ágætis ákvörðun. Eftir að hafa varið öllum morgninum í Vatikaninu röltum við að kastala heilags Angelo þar sem við dvöldum dágóða stund enda fætur orðnir lúnir. Upphaflega var kastalinn byggður á árunum 135 – 139 eftir Krist og þá sem grafhýsi fyrir rómverska keisarann Hadriano og fjölskyldu hans. Síðar, eða í kringum árið 410, var grafhýsinu breytt í virki sem var ætlað að verja brúna sem stendur framan við kastalann. Árið 1277 lét Nikulás III páfi gera 800 metra löng göng frá Vatikaninu yfir í virkið. Göngin, Pasetto di Borgo, voru hugsuð sem flóttaleið fyrir páfana og áttu eftir að nýtast sem slík. Til dæmis þegar Alexander páfi hinn sjötti flýði Karl VIII árið 1494. Aftur komu göngin að góðum notum árið 1527 þegar Clement VII páfi átti fótum fjöri að launa þegar hersveitir keisarans Karls V aflífuðu nánast alla svissnesku verðina á tröppum Basiliku heilags Péturs. Á fjórtándu öld hófust páfarnir handa við að breyta virkinu í kastala og var það nýtt sem bústaður páfa, síðar fangelsi og í dag er það safn. Því miður vorum við orðinn södd eftir allan þann sögulega fróðleik sem heimsóknin í Vatikanið um morguninn færði okkur þannig að við orkuðum ekki að skoða safnið. Við eigum það þá eftir ef við heimsækjum Róm aftur.

Frá kastala heilags Angelos gengum við yfir brú hins heilaga Angelos og síðan til austurs í átt að Piazza Navona. Navona torgið er stórt og mikið torg þar sem alltaf er mikið líf. Áfram héldum við til austurs og að Panthenon hofinu. Við nenntum ekki að bíða í langri röðinni eftir því að fá að skoða hofið að innan og héldum til norðurs og inn á Piazza Colonna. Það torg er merkilegra en það sýnist. Er ekki tiltakanlega stórt en var á átjándu öld aðal torgið í Róm. Það helgaðist af íbúunum í höllunum í nágrenni við torgið. Þarna bjó áhrifafólkið í Róm. Á miðju torginu er Antoninus súlan en hún var reist til heiðurs Markúsi Árelíusi keisara. Efst á henni trónir stytta af heilögum Pétri en það var síðari tíma gjörningur. Súlan var reist eftir lát Markúsar í kringum árið 180 eftir Krist. Hún er alþakin útskornum myndum af atvikum tengdum tveimur bardögum sem Markús tók þátt í.