Róm - borgin á hæðunum sjö

Seinni hluti

Guðrún varð fimmtug í sumarbyrjun og af því tilefni ákváðum við hjónin að bregða okkur í haustferð til Rómar - borgarinnar á hæðunum sjö. Öllum haustverkum í vinnunni var lokið og verktakarnir sem höfðu verið að tjasla bakgarðinum hjá okkur saman eftir raskið sem drenvinnan frá sumrinu 2016 hafði valdið voru á braut. Við gátum verið fullkomlega afslöppuð og látið okkur hlakka til ferðarinnar. Hér er seinni hluti frásagnar af ferðalaginu.
Næsta dag áttum við notalega morgunstund í Borghese garðinum sem er steinsnar norðan við Flavia götu þar sem hótelið okkar er staðsett. Þar settumst við niður og hlustuðum á gítaleikara spila þekkt klassísk gítarverk af mikilli snilld. Við þökkuðum gítarleikaranum fyrir tónleikana og settum einhverjar krónur í gítartöskuna hans. Héldum síðan suðvestur niður á Terrazza del Pinicio sem er útsýnisstaður ofan við Popola torgið. Popola torgið stendur á milli Pinicio hlíðarinnar og Tíber. Frá miðju torgsins til suðvestur á milli kirknanna Santa Maria di Miracoli og Santa Maria di Montesanto liggur verslunargatan Via del Corso. Að norðanverðu er síðan kirkjan Santa Maria del Popolo og hliðið Porta Popolo. Porta Popolo var norðurinngangurinn inn í borgina á tímum Rómverja. Það var tengt við Aurelius vegginn sem var byggður á milli hæðanna sjö á árunum 271 – 275 e. kr. til varnar borginni. Útlit svæðisins eins og það er í dag er byggt á hönnun Valadiers og var framkvæmdum lokið árið 1824.
Gróðurinn í Borhese garðinum bar lítil merki haustsins þótt stutt væri í mánaðamótin september október.
Útsyni yfir Róm af Terrazza del Pinicio.
Rom 13Fólksmergðin er óskapleg við Trevi brunninn. Einhvers staðar las ég að þetta hafi áður fyrr verið frekar rólegur staður en bíómyndirnar La Dolce Vita og Vacation in Rome hafi aukið aðdráttaraflið með þessum afleiðingum.
Við vorum að vonum hálf þreytt eftir allar göngurnar daginn áður svo við héldum heim á hótel og fengum okkur miðdagsblund. Það er nefnilega ekkert snjallt í svona borgarferðum að ofgera sér með eilífum göngum. Þreytan sogar þá alla gleði og ánægju úr því að upplifa nýja staði. Um kvöldið ætluðum við síðan að gera okkur ferð í bæinn með það að markmiði að ná einhverjum ljósmyndum í kvöldbirtunni.

Við byrjuðum hjá Trevi brunninum eða þriggja átta brunninum. Brunnstæðið er ævafornt eða frá árinu 19 eftir Krist. Í upphafi var brunnurinn settur upp sem einn af ellefu vatnsbirgðarstöðvum fyrir íbúa Rómar. Fyrsti eiginlegi brunnurinn var hannaður af Leon Battisti Albertini árið 1453. Árið 1629 fékk hinn frægi Bernini það verkefni að hanna nýjan brunn á þessum stað. Sá brunnur var aldrei byggður en hundrað og þremur árum síðar hannaði Nicola Salvi brunninn sem stendur framan við Poli höllina. Salvi nýtti sér töluvert af fyrri hönnun Breninis þannig að karlinn á nú eitthvað í brunninum. Við sáum að það var vonlaust að ætla sér að taka einhverjar myndir af viti af brunninum, slík var mannmergðin. Við gengum því áfram inn á Piazza Navona torgið. Torgið var í upphafi hringleikahús sem skýrir sporöskjulag þess. Á fimmtándu öld var það hellulagt og í ein 300 ár var aðal markaðurinn í Róm staðsettur á torginu. Í gegnum aldirnar hefur torgið iðað af lífi og svo er enn í dag. Við fundum okkur veitingastað fyrir miðju torginu framan Fontana dei Quattro Fiumi sem er einn af þremur gosbrunnunum sem eru staðsettir við torgið. Bernini á einn heiðurinn af hönnun hans. Þar áttum við skemmtilegt spjall við Ryan og frú, Áströlsk hjón.
Myndin sýnir innganginn inn í Panþenonhofið. Aðgangur er ókeypis. Aftan við innganginn er hringlaga salur og yfir honum stórkostlegt hvolfþakið. Í miðju þess er op upp í heiðan himininn.
Á þessum veitingastað áttum við notalegt spjall við áströlsku hjónin. Þau miðluðu því sem þau höfðu séð markvert í borginni og við einnig. Síðan var auðvitað rætt um skólamál.
Að kvöldverðinum loknum gengum við til baka og skemmtum okkur við kvöldmyndatökur. Ennþá var sama ástandið við Trevi brunninn. Hver maður um annan þveran sveiflaði selfistöngum í kringum sig svo maður var í stórhættu. Við Panþenon hofið var einnig nóg af fólki en ástandið var samt mun betra en við Trevi brunninn. Núna var engin röð svo við gáfum okkur tíma til að skoða hofið að innan. Í dag er ekki réttnefni að kalla Panþenon bygginguna hof því árið 609 var hofinu breytt í kirkju. Það þykir með ólíkindum að byggingin sé enn uppistandandi. Að hluta til má þakka það því að henni var breytt í kirkju en að hluta til má þakka það byggingarlaginu. Húsið var hannað af rómverska keisaranum Hadrian og gríska arkitektnum Apollodorus frá Damascus. Þeir félagarnir voru ekki alveg sammála um hönnun hofsins þannig að sá gríski var tekin af lífi. Þannig var ágreiningur leystur í þá daga. Hvolfþak hofsins þykir hreint magnað byggingarafrek og er enn þann dag í dag stærsta hvolfþak sem ekki nýtur viðbótarstuðnings. Í miðju hvolfþaksins er op sem maður getur horft á stjörnurnar í gegnum. Þessi bygging er með þeim stórkostlegri sem við höfum skoðað nokkru sinni.

Það vantar ekki kirkjurnar í Róm. Ein af þeim San Giovanni Lateral kirkjan. Við hrifumst mjög af þessari kirkju. Framhlið hennar er frá miðri 18. öld. Saga kirkjunnar er mun eldri og hefur hún verið endurbætt og byggt við hana aftur og aftur í gegnum aldirnar. Aftan við altarið, sitt hvorum megin er hver flötur veggja þakinn málverkum og freskum. Freskurnar eru flestar gylltar og málverkin máluð með dökkum litum án þess að vera drungaleg. Frá San Giovanni kirkjunni snöruðumst við niður í metróið eftir að hafa skoðað minnismerki um Constantín sem var einn af rómversku keisurunum. Eftir að hafa verslað naglalakk og aðrar nauðsynjar ásamt því að gæða okkur á ítölsku brauði með osti á Santa Maria Maggiori torginu settum við stefnuna á Termini brautarstöðina. Termini brautarstöðin er miðstöð samganga í Róm. Hún var byggð upphaflega árið 1868 en endurnýjuð árið 1942 – 43. Þar var ys og þys eins við var að búast enda er stöðin hin næst stærsta í evrópu. Einungis Gare du Nord í París er stærri.

Á árunum 70 – 80 eftir Krist lét Flavian keisarinn Vespasian 60 þúsund gyðingaþræla byggja hringleikahúsið The Flavian Amphitheater. Þar gátu 50 – 80 þúsund áhorfendur skemmt sér við að horfa á villimannslega bardaga skilmingaþræla og dýra. Á þeim 390 árum sem leikar þessir fóru fram í Colosseum létu 500 þúsund þrælar og yfir milljón dýra lífið á leikvanginum. Síðar fékk leikvangurinn nafnið Colosseum og er það í dag eitt aðal aðdráttarafl Rómar. Þessi magnaði staður var næsta stopp í Rómarferð okkar hjóna. Leikvangurinn ber auðvitað þess merki að hann var ekki byggður í gær. Tíminn hefur sorfið steinana en stærstu skemmdirnar eru frá jarðskjálftum á níundu og þrettándu öld. Það er eiginlega magnað að bygging sem er orðin næstum 2000 ára skuli enn standa uppi. Á Íslandi væri hún í besta falli grjóthrúga. Það gera frost og sífelldar umhleypingar.
Þótt lýðræðið hafi verið takmarkað í Rómarveldi skiptu viðhorf almúgans máli. Sýningarnar í hringleikahúsunum voru tilraun stjórnvalda til að kaupa velvild hins almenna borgara. Ókeypis var á sýningarnar.
Horft upp Roman Forum. Fyrir miðri mynd í fjarskanum er Colosseum og hægra megin er Paladium hæðin.
Þótt Colosseum sé stórkostlegur staður hreif Palatine hæðin og Roman Forum okkur meir. Okkur þótti magnað að rölta um hæðina og dalinn og ímynda okkur lífið á þessum stöðum til forna. Palatine hæðin er sú sem þekktust er af hæðunum sjö. Þar voru Rómúlus og Remus fóstraðir af úlfynjunni, þar áttu fyrstu Rómverjarnir sér heimili og þar bjuggu keisararnir Ágústus, Titus og Dometian. Palatine hæðin var ákjósanlegur staður til að búa á af ýmsum ástæðum. Þar var besta útsýnið yfir borgina, þar varstu miðsvæðis og þar var og er besta loftslagið. Í dalnum niður undan hæðinni var The Roman Forum eða miðstöð stjórnsýslunnar í Róm þegar Rómverjar voru upp á sitt besta.

Skammt frá Trevibrunninum er skemmtileg pastaverslun hvar við keyptum marglitt pasta sem gaman verður að prófa þegar við komum heim. Við settumst niður við Via Delle Muratte götuna og nutum ólíva, kex og bjórs og horfðum á þreytta ferðamennina streyma hjá eins og Norðurá í vatnavöxtum. Við tókum eftir því að sumir litu löngunaraugum á borðið hjá okkur og heyrðum einn segja: ,,Mig langar í svona.“ Næsti áfangastaður okkar var borgarminjasafnið og minnisvarði um fyrsta konung sameinaðrar Ítalíu, Vittori Emanuell II. Minnisvarðinn er vissulega stórfenglegur en ég er nú sammála þeim Ítölum sem þykir aðeins hafa verið skotið yfir markið þegar húsið var byggt árið 1925. Við sáum nú samt ástæðu til að gera okkur kvöldferð á þetta svæði til að taka ljósmyndir í kvöldljósunum.
Síðdegisdrykkur ólífur og kex við Via Della Murattte.
Minnisvarðinn um fyrsta konung sameinaðrar Ítalíu er gríðarmikil bygging.
Daginn eftir heimsóttum við Travestere hverfið sem er við vesturbakka Tíber suður af Vatikaninu. Við höfðum heyrt að þetta væri skemmtilegt hverfi en sannast sagna vorum við ekkert óskaplega imponeruð yfir þessu hverfi. Ef til vill vorum við ekki í rétta skapinu eða við fórum ekki á réttu staðina. Eitt má þó segja jákvætt en þar fékk Guðrún ágætt pasta og ég þetta fína lasagna. Við röltum síðan yfir Tíber og þvældumst stefnulaust um. Versluðum borgarmynd af einhverjum götulistamanninum og þegar dagurinn var tekinn að eldast vorum við algerlega búin að tapa áttum. Ætluðum að þramma í átt að hótelinu en vorum af einhverjum ástæðum komin niður að Tíber aftur. Sólin átti að setjast eftir um það bil klukkustund. Við gengum niður að bakka árinnar. Settumst niður við brú eina þar sem sýnin að Sixtínstu kapellunni er stórkostleg. Guðrún benti mér á að þarna undir brúnni væri greinilega bústaður manns. Við stilltum okkur upp við tröppurnar þar sem góð sýn var undir brúna í átt að kirkjunni og biðum þess að sólinn settist. Því miður vorum við hvorki með þrífótinn né betri myndavélina en við ætluðum samt að freista þess að taka myndir með smámyndavélinni. Eftir um það bil klukkustundar bið sjáum við hvar tötralegur maður í undarlega vönduðum skóm dröslar innkaupakerru niður tröppurnar sem við stóðum við. Íbúinn var að koma heim. Hann virti okkur ekki viðlits en fór undir brúna og hófst handa við að undirbúa kvöldverð. Hann stússaðist um stund undir brúnni en gekk allt í einu ákveðið að okkur og ég átti von á því að hann ætlaði sér að reka okkur í burtu. En nei. Hann stakk höndinni inn í laufhrúgu sem var við fætur okkar og dró fram tveggja lítra drykkjarflösku. Við stóðum sem sagt við kæliskápinn hans. Þegar sólin er við það að setjast og ég er farinn að taka myndir kemur útigangsmaðurinn aftur til okkar og að þessu sinni heldur hann mikla ræðu yfir okkur og baðar út öllum öngum. Í fyrstu héldum við að hann væri að reka okkur í burtu en á handapatinu áttuðum við okkur á því að hann var að gefa okkur ráð varðandi ljósmyndunina. Honum fannst við illa staðsett. Hann áttaði sig auðvitað ekki á því að við ætluðum að láta brúna ramma myndefnið inn og vorum bundin af stöpli sem við gátum látið myndavélina hvíla á því enginn var þrífóturinn. Eins og við var að búast þá urðu myndirnar ekki góðar en þetta var nú samt ánægjuleg stund við Tíber.
Travestere. Þarna eru lítil notaleg veitingahús og heldur afslappaðra andrúmsloft en annars staðar í miðborg Rómar.
Vinstra megin á myndinni má sjá heimilislausa manninn bjástra. Hægra megin undir brúnni sér í Sixtínsku kapelluna. Fremst hægra megin er laufhrúgan eða kæliskápurinn.
Nú var ekki mikið eftir af ferð okkar hjóna í borgina á hæðunum sjö. Einungis lokadagurinn eftir og síðan heimferðin. Lokadagurinn gaf svo sem lítið tilefni til frásagnar. Við þvældumst bara stefnulaust um og nutum þess að vera til. Heimferðin gekk síðan áfallalítið fyrir sig utan þess að taskan mín, já sú sem týndist á útleiðinni, varð fyrir enn einu áfallinu. Hún var öll úr lagi gengin, rifinn og tætt en hafði þó náð að verja innihaldið svo það var óskemmt. Taskan var keypt í Rúmfatalagernum fyrir mörgum árum síðan fyrir smápening og hefur þjónað okkur vel. Henni var stillt upp við ruslatunnurnar heima og beið þar örlaga sinna. Þar stóð hún blessuð í þrjá daga eða þar til ungur drengur sem átti leið hjá bankaði upp á og spurði hvort hann mætti eiga þessa ágætu tösku. Það var hið sjálfsagðasta mál og drengurinn gekk glaður upp götuna okkar með ónýta tösku í eftirdragi.
Roman Forum að kvöldi til. Colosseum er við hliðina á kirkjuturninum.
Roman Forum. Hér er myndavélinni beint til vinstri miðað við myndina hér við hliðina.
Hér erum við skammt frá borgarminjasafninu.
Trajan súlan og á bak við hana er Ulpia basilikan.
Tókst Rómarbúum að bæta hugmyndir mínar um hina ítölsku þjóð? Jú, þeim tókst það. Á flestum stöðum mættum við ágætis viðmóti en það reyndi svo sem ekki mikið á hjálpsemi þeirra en ástæða neikvæðra viðhorfa minna í upphafi var einmitt skortur á slíku. Því miður þá breyttust einnig hugmyndir mínar um ítalska matarmenningu. Ég hef hreinlega aldrei fengið jafn lélegan mat á veitingastöðum í nokkurri borg sem ég hef heimsótt. Sennilega höfum við bara verið óheppinn og ekki verið á réttu stöðum.