Porto 2018

Porto er borg við Atlandshafið í norðurhluta Portúgals. Borgin nýtur kaldra vinda hafsins og fyrir vikið er loftslagið í borginni mildara en í flestum öðrum borgum Portúgals. Aldrei kalt. Vissulega eru heitustu mánuðirnir heitir en það er ekki algengt að hitinn fari yfir 40 gráður. Porto stendur við norðurbakka Duoro árinnar. Íbúar eru um það bil 250 þúsund. Við suðurbakka árinnar stendur borgin Gaia með sína 200 þúsund íbúa. Samtals búa ein og hálf milljón íbúa í báðum borgunum og næsta nágrenni. Ástæða þess að við vorum að þvælast þetta í nóvember var árshátíðarferð Fjársýslunnar dagana 16. – 19. nóvember. Það væri nú gaman að bjóða mínu starfsfólki upp á svona ferð en sennilega fengi ég nú bágt fyrir.

Við gistum á Hótel Heroismo. Hótelið er hluti af Eurostar hótelkeðjunni og reyndist vera með betri hótelum sem við höfum gist á. Gerum þó athugasemd við baðherbergishönnunina því baðherbergið er rammað af með glervegg! Þykir okkur slík hönnun bjóða upp á full lítið prívat til nauðsynlegra athafna á baðherbergi. Við lentum á flugvellinum í Porto um hádegisbil þannig að við höfðum ágætis tíma til að skoða okkur um. Reyndar fórum við beinustu leið á Rua de Santa Catarina sem er aðal verslunagatan í Porto. Þar byrjuðum við að ausa peningum í kaupmenn borgarinnar. Þetta hljómar eins og kaupæði hafi runnið á okkur en það var nú ekki alveg þannig. Það er samt svo að ef það er þörf á að versla fatnað og skó þá er Porto rétti staðurinn til þess. Verðlag í Porto er nefnilega með því betra í Evrópu.

Myndin er tekin af bakka Duoro árinnar Gaiamegin. Stálvirkið í Luis I brúnni sést hægra megin á myndinni. Brúin er á tveim hæðum og hægt að ganga yfir hana á báðum hæðunum.

Dæmi um skreytingu flísaskreytingu. Því miður eigum við engar myndir frá brautarstöðinn. Ástæðan er sú að ég klúðraði einhverju þegar ég flutti myndirnar af myndavélinni yfir í tölvuna og glataði flestum myndanna sem við tókum í ferðinni.

Laugardagurinn byrjaði á gönguferð um miðbæinn. Á þeirri göngu miðluðu leiðsögumenn heilmiklum fróðleik sem er að mestu gleymdur þegar þetta er ritað. Mesta athygli vöktu húsaskreytingarnar. Í Porto er greinilega til siðs að flísaleggja hús að utan með azulejo flísum. Þessi siður berst til Portúgals á fimmtándu öld frá Sevilla á Spáni en þangað berst hann með Márunum sem þá réðu ríkum á Íberíuskaganum. Heiti flísanna, azulejo er dregið af arbíska orðinu yfir slípaður steinn. Algengast er að flísarnar séu bláar og hvítar en það er ekki algilt. Stundum eru þær í öllum litum. Á gönguferðinni mátti víða sjá svona flísskreytingar. Eftirminnilegast er das Almas kapellan og Sao Bento brautarstöðin með sínum 20 þúsund flísum með myndum af ýmsum atburðum í Portúgalskri sögu ásamt myndum úr daglegu lífi fólks í norðurhluta Portúgals.

Gönguferðinni lauk síðan í Porto Calem sem er eitt af 60 vínhúsum undir skuggsælli hlíðinni við suðurbakka Duoro árinnar. Þar fengum við fræðslu um portvínsframleiðsluna sem fer fram í Douro dalnum og í vínhúsunum við mynni árinnar. Upphaf portvínanna má rekja til vínþorsta Breta og vöntunar á rauðvínum þegar innflutningur á þeim frá Frakklandi var bannaður á 17. öld í einum af mörgum deilum sem þeir háðu við Frakka. Þeir hófu þá að flytja rauðvín til Bretlands frá Portúgal og einhverjum datt það snjallræði í hug að blanda smávegis af brandý í rauðvínið til að viðhalda gæðum þess í flutningnum. Portvín eru sem sagt sæt vín sem hafa verið styrkt með rótsterku brandý (77%). Ástæðan fyrir sætleikanum er að brandýið stoppar gerjunina þannig að minna af sykrinum breyttist í alkahól og þar af leiðandi verða vínin sætari. Portvín eru annað hvort látin eldast í eikartunnum eða flöskum. 98 prósent allra portvína koma úr eikartunnum. Yngstu vínin og þau aðgengilegustu eru kölluð Ruby sem er vísun í dökkrauða litinn sem þau bera. Það er sterkur keimur af ávöxtum og plómum í þeim ásamt súkkulaði og kryddi. Þessi vín þarf að drekka innan viku eftir að flaskan er opnuð. Hin gerðin kallast Tawny. Megin munurinn á þeim er tíminn sem vínið er látið eldast í eikartunnum. Ruby vínin eru þrjú ár í eikartunnunum en Tawny vínin í sex ár. Það veldur því að litur þeirra er ekki eins dumbrauður og ber minni keim af ávöxtum en meiri keim af eik, hnetum, karamellu og þurrkuðum ávöxtum. Tawny vínin eru sætari en Ruby vínin. Síðan er til ljósari gerð af portvínum sem er unnið úr grænum vínberum á sama hátt og Ruby vínin. Við fengum auðvitað að smakka bæði hvítt og rautt og veltum fyrir okkur hvers vegna Íslendingar segja púrtvín en ekki portvín. Ætli það sé dönskusmitun?

Að vínkynningunni lokinni gengum við yfir Ponte de Dom Luís I eða Luis I brúna ásamt Guggu og Stefáni. Brú þessi er ein af sex brúm sem tengja borgirnar sitt hvoru megin við Duoro ána. Brú þessi er gjarnan kölluð Eiffel brúin þrátt fyrir að vera hönnuð af allt öðrum manni, Théophile Seyrig. Seyrig þessi var samverkamaður eða lærlingur Eiffel og ber byggingarstíllinn þess glöggt merki. Við fengum okkur hádegisverð á frábærum veitingastað Portomegin við ána og nutum þess að sitja úti í veðurblíðunni. Um kvöldið var síðan árshátíðin haldin í einu af vínhúsunum. Hófst hún á portvínskynningu og auðvitað var fordrykkurinn portvín. Ég verð nú að gera þá játningu að þessi himneski drykkur er ekki svo himneskur í mínum augum. Gildir þá einu hvort vínið sé hvítt eða rautt. Guðrún var hins vegar hrifnari og keypti flösku af 20 ára gömlu portvíni og þrjár minni af mismunandi tegundum.

Óli blaðasali þeirra Portobúa.

Kvöldmynd af Luis I brúnni yfir að árbakkanum þar sem vínhúsin eru í Gaia.

Dæmi um vel varðveitt miðaldahús í bænum Guimares.

Daginn eftir árshátíðina þvældumst við um borgina og skoðuðum það sem markvert er að sjá. Umhverfið niður við Douro ána er skemmtilegt en það var svo sem ekkert óskaplega margt sem vakti sögulegan áhuga. Vissulega á Porto sér ríka sögu en við vorum ekki í þeim hugleiðingum. Þvældumst bara um og nutum þess að vera ekki hrakin af kulda og trekki, en rigningu fengum við þennan dag. Víða í Porto sáum við yfirgefin og hrörleg hús. Það er greinilegt að íbúar Porto hafa ekki mikið fé til að halda húsunum við enda er landið það fátækasta í Vestur Evrópu. Við heyrðum eitt nafn oftar öðrum í þessari ferð. Antónío Salazar. Salazar þessi var einræðisherra í Potrúgal í ein fjörutíu ár. Hann stjórnaði með dæmigerðum aðferðum fasisma. Með ógn og hann hélt almúganum illa menntuðum enda á vel menntað fólk það til að spyrja óþægilegra spurninga.

Við veltum fyrir okkur hvort við hefðum átt að nýta mánudaginn til að versla jólagjafir. Það hefði verið kjörið því verðlag er lágt í Porto en þá hefðum við misst af því að skoða bæinn Guimares. Við völdum því að skoða bæinn. Guimares er á heimsminjaskrá UNESCO og er gjarnan kallaður vagga Portúgals. Þar fæddist fyrsti konungur sameinaðs Portúgals, Alfonso I. Alfonso þessi sigraði her móður sinnar og elskhuga hennar árið 1128. Portúgalir líta á þennan dag sem fyrsta dag sjálfstæðs Portúgals. Húsin í miðbænum eru einstaklega vel varðveitt miðaldahús. Neðri hæð húsanna er steypt en efri hæðin er úr timbri sem var dæmigert fyrir byggingarstílinn á þessum tíma.