Brautarlækjarannáll 9. - 11. apríl 2020

Enn ríkir vetur

Við ákváðum að hafa tilmæli almannavarna um að halda okkur heima um páskana að engu. Tilmælin voru sett fram til að páskaferðalangar færu nú ekki að auka álagið á heilbrigðiskerfið. Það er nefnilega árvisst að einhverjir fara sér að voða í ferðum sínum um páskana. Síðan var auðvitað verið að koma í veg fyrir smit bærist á milli landshluta. Hvaða smit er nú verið að tala um. Jú, það er veiruskömm af kórónuætt sem tröllríður samfélögum heimsins og veldur sjúkdóminum Covid-19. Þessi skjúkdómur er það skæður að eldra fólk og þeir sem veikir voru fyrir létust hugsanlega af völdum hans.

Brautarlaekur april 2020 3Norðurá var ekki búin að ryðja sig. Fyrir neðan bústaðinn var hægt að ganga langt út á á en það var varasamt því ísinn var ekki alls staðar mannheldur.
Brautarlaekur april 2020 1Það hefur verið mikill snjór í kringum húsið í vetur. Hér situr Dalton ofan á skaflinum neðan við húsið.Við ákváðum samt að það væri ástæðulaust fyrir okkur að sitja heima. Við töldum það ekki vera ábyrgðarleysi því við höfum í einu og öllu farið eftir tilmælum tengdum veirunni. Ferð í Brautarlæk um páska hefur verið árviss viðburður í rúm fjörutíu ár og aldrei höfum við þurft að leita nokkurrar aðstoðar né hafa samneyti við annað fólk nema við vildum. Hér erum við nefnilega frekar einangruð og til að komast hingað er ekki yfir neinn fjallveg að fara og átta hundruð metrar í næsta hús. Athafnir okkar eru heldur ekki líklegar til að valda slysum því þær felast í lestri, ritun og lausn krossgáta. Reyndar fórum við í eina gamalmennagönguför eftir sveitaveginum upp að brú. Það var sennilega það háskalegasta sem gert var í þessari ferð.

Harpa og hundarnir Lappi og Dalton voru með okkur Guðrúnu að þessu sinni. Þeir voru alsælir með frelsið sem þeir hafa hér. Veturinn ræður enn ríkjum. Snjór er í sköflum en autt er inn á milli. Norðurárin er enn í klakaböndum og gaman að ganga með henni. Hitinn var frá mínus þremur gráðum upp í fjórar í plús á meðan á dvöl stóð.

Gamla grillið var orðið frekar lúið svo við Guðrún ákváðum að endurnýja það. Komum við í Bauhaus á leiðinni og versluðum eitt stykki Broil King grill.

Brautarlaekur april 2020 2