Brautarlækjarannáll 8. - 10. maí 2020

Það er enn ísskápshiti úti

Í þriðja sinn á þessu ári erum við Guðrún stödd í Brautarlæk og í þriðja sinn er veðrið einmuna gott. Það er reyndar ísskápshiti úti við en það hitnar vel þegar sólarinnar nýtur við og hennar nýtur svo sannarlega við þessa dagana. Himininn er heiður og tær enda engin uppgufun af landinu þegar lofthitinn er svona lágur. Þegar þetta er ritað stendur hún Guðrún mín við eldavélina steikir sveppi og lauk sem nota skal í sósuna með nautakjötinu sem bíður þess að fara á nýja grillið. Hljómsveitin Hjálmar flytur lagið sitt „Ég verð að fá mér kærustu.“ Bæði sötrum við á Grand Mariner og á borðinu stendur 1000 Stories Chabernet Sauvignon, árgangur 2017, rauðvín frá Kaliforníu. Á flöskunni stendur að vínið hafi verið látið eldast í viðartunnum sem áður höfðu geymt Bourbon vín. Bragðið er sagt einkennast af vanillu og ýmsum jurtum. Ekki veit ég með vanilluna en við þóttumst finna keim af sultu og töluverðu tannín. Þetta er uppskrift að kvöldi sem getur ekki klikkað.
Brautarlaekjarannall 8 10 mai 3Lappi með Snjóföllin í baksýn.
Laugardaginn nýttum við í að bera áburð á trén á skikanum okkar í kringum húsið. Létum 25 kg nægja og lögðum áherslu á að bera áburð að minnstu trjánum. Sátum síðan á pallinum og nutum sólarinnar. Um miðjan dag renndum við upp á heiði. Lögðum Kiunni á háheiðinni og gengum inn á heiðina til að sjá yfir Holtavörðuvatn. Vatnið er enn ísi lagt enda eru töluverð frost ennþá. Í nótt sem leið fór frostið til að mynda niður í níu gráður. Álftirnar eru samt mættar en halda sig við heiðarsporðinn og bíða þess að ísa leysi af vötnum heiðarinnar. Maríuerlan er einnig mætt. Við höfum séð hana á vappi um flötina við húsið. Hún hefur svo lengi sem við munum verið með hreiðrið sitt undir húsinu.

Við nýttum rólegheitin til að bollaleggja um verkefni sumarsins hér í Brautarlæk. Málun á þakinu er komin á tíma og við komumst ekki hjá því að leggjast í smávegis girðingarvinnu. Annar hliðstaurinn hefur brotnað í vetur. Það gæti vel verið að við létum loksins verða að því að setja almennilegt járnhlið við innaksturinn inn á skikann. Girðingin frá vestari læknum að horni og einnig girðingin sem veit að Háreksstaðalandinu er orðin döpur þannig að við komumst ekki hjá því að gera eitthvað í því máli í vor. Einnig freistar það okkur mjög að kaupa nokkrar furur til að setja niður ofan við húsið.

Stóra verkefnið sem bíður er grunnvinnan undir skúrinn sem við höfum ákveðið að byggja við borholuna. Fyrsta verkið verður að grafa fyrir skúrnum og slétta landið áður en við setjum niður undirstöðustaura eða sláum upp fyrir grunni. Hvor leiðin sem verður farin þá þurfum við að finna stað fyrir allan jarðveginn sem kemur upp úr grunninum. Okkur hjónunum datt í hug að ef til vill væri snjallt að setja hann í norðvesturhornið á skikanum okkar. Þá myndum við losna við lúpínuna úr horninu því við myndum færa hana á kaf undir jarðveginn og hreinlega kæfa hana. Væri það ekki stórsnjallt?