Brautarlækjarannáll 22. - 24. maí 2020

Þrjár nýjar furur og girðingarefni

Við komum í Brautarlæk seint á föstudagskvöldinu með kerruna drekkhlaðna af girðingarefni. Okkur þótti gott að vera komin með efnið á staðinn fyrir hvítasunnuhelgina því þá stendur til að fara almennnilega með girðingunni og jafnvel girða upp á nýtt. Loksins ætlum við að láta verða að því að setja niður almennilegt hlið við innaksturinn inn á skikann okkar. Þegar ég fór að bera hliðið við þá þótti okkur það helst til lítið þannig að við þurfum að drösla því í bæinn aftur og finna hlið í hentugri stærð. Það er lágmark að hliðið sé fjórir metrar að breidd.

Brautarlaekjarannarll 22 24 mai 2020 1Kerran okkar má muna fífil sinn fegurri en hún hefur sannarlega nýst okkur vel. Girðingarefnir var allt keypt í Líflandi.
Undanfarin ár höfum við nánast ekkert sinnt trjánum. Ástæðurnar eru sennilega annir við framkvæmdir fyrir sunnan. Núna erum við aðeins að vakna til lífsins með þetta að nýju. Bárum á trén í síðustu ferð og núna settum við þrjár fimmtíu sentímetra stórar furur niður, hver af sinni gerð.

Broddfuran er afskaplega harðgert tré sem hægt og örugglega vex 5 – 10 sentímetra á ári. Hana kelur aldrei. Ég hefði haldið að broddfuran væri kjörin í íslenska jörð en hún er alls ekki algeng hér. Fyrstu trén voru gróðursett á Hallormsstað á árunum 1903 – 1905. Þau tré eru orðin rúmlega níu metra há. Það tekur broddfuruna um það bil tuttugu ár að bera fræ og hún verður gríðarlega gömul. Ef þetta grey sem við erum að setja niður lifir gæti hún þess vegna staðið enn við Brautarlækinn eftir tvö til þrjúþúsund ár. Heimkynni broddfurunnar eru í yfir tvö þúsund metra hæð í Kaliforníu. Hún verður þar í kringum 15 metra há.

Bergfuran er nægjusamt tré sem getur lifað í flestum jarðvegsgerðum. Rétt eins og broddfuran vex hún hægt en á endanum getur hún orðið 10 – 20 metra hátt tré. Hún er mjög lík stafafurunni en nálarnar eru heldur lengri á henni og eru dökkgrænar en grágrænar á stafafuru. Einnig eru nálaslíðrin lengri á bergfuru. Fyrstu bergfururnar voru settar niður rétt fyrir aldamótin 1900. Elstu trén eru á Grund í Eyjafirði, á Þingvöllum og við Rauðavatn. Heimkynni hennar eru í Vestur – Evrópu, aðallega í Pyrenafjöllunum.

Stafafura er þriðja tréð sem við settum niður. Hún er algengasta furan sem nýtt er í skógrækt á Íslandi. Af henni eru tvö afbrigði. Annars vegar strandafbrigði sem verður 3 – 10 metrar á hæð og afbrigði sem vex inn til landsins og verður 15 – 30 metra hátt. Ekki vitum við af hvorri tegundinni stafafuran sem við settum niður er. Okkur þykir líklegra að hún sé strandfuran. Heimkynni stafafurunnar er vesturströnd Norður-Ameríku og Klettafjöllin Hún verður 4 – 600 ára gömul.

Brautarlaekjarannarll 22 24 mai 2020 2Staðið tað er svo sannarlega mikið verðmæti fyrir þann sem ætlar sér að rækta skóg.
Við settum plönturnar niður ofan við Brautarlækjarhúsið. Okkur vantaði eitthvað til að bæta næringuna í jarðveginum og litum við hjá Þóri og Rósu á Hóli til að athuga hvort við mættum sníkja af þeim eins og eina kerru af taði. Það reyndist auðsótt mál.