Gos á Reykjanesi

Þægileg heilsubótarganga

Grindvíkingar eru ekki kvartsárt fólk enda vanir því að óblíð náttúruöflin hristi þá og skeki. Í mars var þeim orðið nóg boðið og kvörtuðu sáran enda höfðu þeir svo sannarlega ástæðu til. Þeir höfðu varla staðið í lappirnar frá áramótum vegna stöðugra jarðhræringa sem virtust engan enda ætla að taka. Mælar vísindamanna veðurstofunnar mældu tugþúsundir skjálfta og voru þónokkrir nógu öflugir til að finnast greinilega hér í höfuðborginni. Þrír þeirra mældust yfir fimm. Daglega voru vísindamenn í fjölmiðlum og sögðu með spekingslegum svip að annað hvort myndi jarðskjálftahrinan hætta eða að hún myndi halda áfram. Já, þetta eru mikil vísindi og nokkuð öruggt er að vísindamennirnir munu ekki hafa rangt fyrir sér.

Áfram hristust Grindvíkingar en nú fóru menn að velta fyrir sér hvort eldurinn í iðrum jarðar væri að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Spekingslegir vísindamennirnir voru spurðir í þaula um hvort það gæti verið tilfellið? Þeir sögðu sem er svo satt að annað hvort myndi gjósa eða að það myndi ekki gjósa. Óvissan var farinn að ergja margan Grindvíkinginn svo mjög að margir þeirra voru farnir að gista annarsstaðar en í þorpinu sínu. Ofan á allt annað þá fór rafmagnið. Grindvíkingum þótti illa að sér vegið og kröfðust skýringa. Einn vísindamaður var þó nákvæmari en aðrir og sagði að það væru sáralitlar líkur á því að það myndi gjósa. Daginn eftir fór að gjósa í Geldingadal.

Gos a Reykjanesinu 5Það gaus út tveimur gígum þegar við vorum stödd þarna. Fimm dögum síðar þegar greinin var sett á vefinn opnuðust tvær sprungur skammt frá þannig að núna gýs á fjórum stöðum.

Nú önduðu Grindvíkingar léttar því vísindamenn veðurstofunnar sögðu að gosið myndi létta á spennunni þannig að draga myndi úr jarðhræringunum. Reyndir sögðu þeir líka að það væri enn spenna annars staðar á Reykjanesskaga og það gæti alveg gerst að yrði hraustlegur hristingur austar á skaganum. Nú eða ekki. En Grindvíkingar hljóta samt að hafa andað léttað því vissulega dró úr hristingnum. Síðan var gosið á þægilegum stað og það var lítið og krúttlegt svo enginn skaði hlytist af. Adam var samt ekki lengi í paradís því forvitnir íbúar þessa lands flykkjast nú á gosstöðvar og leið þeirra allra liggur í gegnum Grindavík. Gindvíkingar komast varla út í búð fyrir bílamergðinni. Félagsvísindamenn hafa ekki enn þegar þessi orð eru skrifuð tjáð sig um þetta. En ef þeir yrðu spurðir myndu þeir eflaust með spekingslegum svip segja að hér væru tvær sviðsmyndir mögulegar. Annað hvort myndi straumur fólks á gosstöðvarnar hætta eða að hann myndi halda áfram. Grindvíkingar verða að lifa áfram í óvissunni.

Þetta var langur inngangur að því sem átti að vera efni greinarinnar. Ég og Lilja dóttir mín sáum okkur leik á borði að morgni dags þann 31. mars og héldum sem leið lá vestur í Geldingadal. Við vorum langt í frá ein á ferð. Fjöldi fólks var þarna í sömu erindagjörðum. Vinsamlegur björgunarsveitarmaður vísaði okkur á bílastæðið og við þrömmuðum af stað. Björgunarsveitarmenn í Grindavík hafa staðið vaktina við gosstöðvarnar nótt sem nýtan dag og kvarta sáran. Þeir eru ekki að kvarta yfir hlutskipti sínu. Það er af og frá. Þeir hafa áhyggjur af fyrirhyggjuleysi göngufólks því margur röltir þarna út í óbyggðirnar algerlega vanbúinn til göngu í þessum aðstæðum. Við Lilja vorum auðvitað til fyrirmyndar hér. Bæði með nesti og nýja skó. Þegar við Lilja litum í kringum okkur sáum við að athugasemdir björgunarsveitarmanna voru sko aldeilis réttlætanlegar. Sumir göngumenn voru bara í ruglinu. Flestir voru samt í góðum málum.

Gos a Reykjanesinu 3Hér situr Lilja og horfir yfir hraunbreiðuna í átt að fjallinu sem er þarna orðið um 100 m hátt.

Gangan tók okkur klukkustund og tuttugu mínútur. Þá vorum við komin í Geldingadal sem telst varla lengur dalur því hraunið er á góðri leið með að fylla hann. Geldingahraun verður sennilega örnefnið sem notast verður við til að staðsetja svæðið í framtíðinni. Við gengum síðan inn með hrauninu þar til við sáum spýjurnar spítast úr gígunum tveim. Settumst þar niður og fengum okkur kakó og með því. Mynduðum herlegheitin í gríð og erg og bara nutum þess að fylgjast með þessu sjónarspili sem íslensk náttúra býður upp á þessa dagana.

Þar sem við sátum þarna í hlíðinni með sýn yfir gígana veltum við því fyrir okkur hvað þetta gos myndi nú standa lengi. Þessari spurningu hafa vísandamenn svarað af sinni alkunnu nákvæmni. Hugsanlega hættir gosið á morgun eða það gýs í mörg ár. Núna gæti einhver ágætur lesandi verið farinn að velta fyrir sér hvort tilgangur ritanda þessarar greinar sé að gera lítið úr okkar ágætu vísindamönnum. Að hann sigli af stað með þessa grein undir fölsku flaggi. Þykist ætla að segja frá ævintýri á gönguför en er síðan bara með blammeringar út og suður. Nei það er nú alls ekki svo. Þökk sé íslenskum vísindamönnum þá gátum við mæðginin rættum um þau náttúruundur sem við okkur blöstu af heilmikilli visku og viti. Vísindamennirnir okkar eru bara varkárir og láta fjölmiðla ekki plata sig til að fullyrða eitthvað sem þeir hafa lítinn fót fyrir.
Að sjálfsögðu nýttum við okkur það að við vorum komin þarna út á skagann og renndum fram hjá Kleifarvatni á leið okkar til baka. Ég hef nefnilega hug á að kanna veiðina í Kleifarvatni í vor. Þótt vatnið sé stutt frá höfuðborginni þá hef ég undarlegt nokk ekki reynt veiðar þar. Úr því verður bætt í haust.

Gos a Reykjanesinu 1Ef rýnt er í myndina má sjá að þótt yfirborð hraunsins sé grátt þá er flótandi hraunkvika undir.

Lilja við KleifarvatnLilja við Kleifarvatn

Við tókum auðvitað myndir og myndbönd á leiðinni og settum síðan saman stuttklippu frá ferðinni.