Kjallaraíbúð gerð upp


Rétt í þann mund sem sól var lægst á lofti í desember var ástæða til að fagna því loksins lukum við verkefni sem okkur þótti á tímum engan endi ætla að taka. Þannig var að um mitt ár 2012 keyptum við raðhús sem er með þremur íbúðum. Allar eru þær því marki brenndar að þarfnast endurbóta. Þar sem við höfum gaman af því að taka öðru hvoru til hendinni þá fannst okkur ekkert tiltökumál að dunda okkur við þær endurbætur eins og efni og ástæður leyfa. Viðhaldsföndrið hófum við í október 2012 og nú, tæpum fimmtán mánuðum síðar og fleiri vinnustundum en maður kærir sig um að muna er íbúðin í kjallaranum orðin íbúðarhæf að nýju.
Það þurfti að drena íbúðina innan frá. Rauðamýri sest að rörunum og með tímanum stíflar hún þau og þau hætta að drena.

Hér var þvottahús. Veggirnir rifnir og verið er að flota í sárið.

Ekki ætla ég að láta eins og maður hafi gert þetta allt sjálfur án nokkurrar aðstoðar. Ó, nei það er aldeilis ekki svo. Ýmsir komu að verkinu og studdu það með ráðum og dáð. Fyrir það ber að þakka. Svilar mínir tveir og mágur sýndu lipra takta eins og þeirra er von og vísa og pabbi var eins og alltaf fljótur að stökkva til þegar maður leitaði til hans.