Bílastæði hellulagt


Ég var búinn að ákveða að fara ekki í miklar framkvæmdir þetta sumarið. Langaði helst að fá að njóta sumarsins í veiðiskap og útiveru. Það fór nú samt svo að við hjónin ákváðum að stækka bílastæðið fyrir framan húsið. Við tímdum nú ekki að kosta miklu til þannig að ég reyni að djöflast sem mest í þessu sjálfur því aðkeypt vinna hleypir kostnaðinum alltaf upp svo um munar. Kostnaðaráætlun fyrir bílastæðið gerir ráð fyrir kostnaði upp á 345.000 kr. Við hófumst handa í lok maí.

Fyrsti hluti framkvæmdarinnar var auðvitað að fjarlægja gróðurinn sem var fyrir og moldarjarðveg 60 – 80 cm niður til að koma í veg fyrir frostlyftingu. Þessi vinna tók um það bil mánuð enda allt gert með einum haka, einni skóflu og flutt í námur sem eru í iðnaðarhverfinu á milli Mosfellsbæjar og Grundarhverfis. Stærð svæðisins er 4 metrar á breidd og 5,5 metrar á lengd. Þegar gróðurinn var farinn og við vorum að manna okkur upp í að hefja skurðgröftinn sló ég lauslega á magnið. Áætlaði að þetta væru um það bil 30 fullar kerrur af mold sem þyrfti að fjarlægja. Kerrurnar urðu 31. Þrjár þeirra fóru í blómabeðin í garðinn en restin í fyrrnefnda námu.
Moksturinn var allur gerður á höndum og reyndist hin besta líkamsrækt.
Skurðurinn var tilbúinn þann 26. júní og þá var hafist handa við að fylla hann að nýju og undirbúa fyrir hellulögnina. Það eru nokkrar lagnir í skurðinum. Frárennslislagnir fyrir bílaplanið, skolpfrárennsli, jarðsímastrengur, stofninn fyrir rafmagnið og rafmagn fyrir útiljósin. Setti sand yfir jarðsímastrenginn og rafmagnið fyrir útiljósin til að hlífa lögnunum við núningi við grófa fyllingaefnið í skurðinn. Skurðurinn var síðan fylltur með grúsinni. Hún var sett í tveimur 30 cm lögum og þjappað á milli. Þjöppunin var framkvæmd með 150 – 200 kg jarðvegsþjöppu sem var leigð í Byko. Þessi þjappa er sú minnsta sem ráðlagt er að nota í þetta verk. Farið var fjórar umferðir yfir svæðið með þjöppunni og bleytt á milli til að fá sem allra þéttustu þjöppun. Síðan var sandurinn þjappaður með sömu þjöppu. Við höfum aldrei lagt hellur áður þannig að ekki var nú þessi framkvæmd alveg laus við mistök. Ég hafði hugsað mér að fínjafna undirlagið undir hellurnar þegar sandlagið kæmi en grófjafna neðri lögin með auganu. Það voru mistök því við lentum í vandræðum jöfnunin á grófa undirlaginu var ekki nógu nákvæm. Við skulum bara segja að þetta sé bara hið besta mál því maður lærir af mistökunum.

Næst var að leggja hellurnar. Keyptum rúm fjögur tonn af 8 cm. þykkum Óðalsstein í BM Vallá, samtals 21 fm. Nú var hafist handa við að leggja hellurnar. Til að tryggja að hellulögnin fylgdi óreglulegri hæð steypta hluta bílastæðisins var skarð nam þykkt hellnanna sagað upp í endann á spýtunni sem notuð var til að jafna undirlagið. Rör lögð í sandinn og hæð og halli stilltur réttur. Þetta reyndist nokkuð vandasamt því hellulögnin hefur tilhneigingu til að síga í miðjunni. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að slá hæðarlínu á hverja röð. Ég þurfti þrisvar að rífa upp fyrstu raðirnar. Það skrifast á reynsluleysið. Þann sjötta júlí voru hellurnar komnar á sinn stað fyrir utan þær fáu sem þurfti að saga og höggva til. Þá stóðum við uppi með heila sjö fm af hellum í afga
Fyllingarefnið þjappað og hellulögnin hefst.
Það þurfti sáralítið að sníða hellurnar til en þó aðeins því við enda stæðisins stóð brunnur sem þurfti að skera í kringum. Það reyndist einfalt verk að sníða þær til með slípirokk og demantsblaði. Þær hrukku síðan í sundur við smá bank með hamri og meitli. Venjulegar skurðarskífur dugðu ekki til verksins en demantsskífa fór létt með þetta.

Til að tryggja að þetta fína bílastæði skriði nú ekki smá saman út í trjárunnann gróf ég um það bil 50 cm djúpan skurð meðfram hellulögninni. Sló upp fyrir vegg með spýtnadrasli sem ég fann í bílskúrnum og járnabatt hann með tíu millimetra kambstáli. Makaði vélaolíu innan í mótið til að auðvelda rifin þegar steypan væri orðin þurr. Leigði síðan hrærivél og steypti í mótin. Að lokum smurði ég múrhúð utan á vegginn svo hann fengi dálítið fínni áferð. Veggurinn er ef til vill óþarflega veglegur en hann heldur alla veganna vel við.

Til að koma í veg fyrir að hellurnar jagi til þegar gengið er á þeim sópaði ég pússningasandi á milli þeirra. Fyrst ætlaði ég bara að sópa sandinum á milli en í fyrstu rigningu rann hann bara niður þannig að það leit úr fyrir að enginn sandur væri á milli hellanna. Fann út að auðvitað væri best að skola sandinum í rifurnar. Síðasta verkið var að skera ofan af brunninum og smíða lok á hann svo við kæmum ekki að blaðaberanum fastan ofan í honum einhvern morguninn.
Hægt og rólega mjakaðist hellulögnin áfram. Þegar hellurnar voru komnar niður var steyptur veggur meðfram lögninni til að halda við hana.