Gengið á Sveinatungumúla


Sveinatungumúli stendur við þjóðveg eitt. Undir múlanum stendur bærinn Sveinatungu sem helst hefur það sér til ágætis að vera elsta steinhús í sveit á Íslandi. Sveinatunga er síðasti bærinn sem ekið er fram hjá áður en lagt er á Holtavörðuheiði ef frá er talinn Fornihvammur sem stendur þó nokkuð ofar. Upp af bænum rís múlinn í 322 metra hæð og þrátt fyrir að hann rísi nú ekki hátt er hið ágætasta útsýni ofan af honum.
Gangan á múlann er lauflétt og af þeim sökum rannsóknarefni hvers vegna gangan á sunnudaginn í vikunni sem leið var mín fyrsta ganga þarna upp. Hafandi horft á hann frá Brautarlæk nú í næstum þrjátíu ár! Við lögðum af stað um nónbil frá Brúartúninu þar sem kúnum frá Sveinatungu var stundum beitt þegar jörðin var í ábúð. Fyrir nokkrum árum var trjám plantað í múlann og við gátum ekki annað séð en að þau hafist vel við. Það er að segja trjám sem stinga vegnar vel þarna því sauðfé veður þarna um og eyrir engu sem ekki ver sig með göddum.
Þegar upp var komið gerðum við eins og göngumenn gjarnan gera þegar toppnum er náð. Snerum okkur til norðurs, austurs, suðurs og vesturs og rifjuðum upp það sem við mundum af örnefnum og sögum tengdum þeim. Því miður voru aðstæður til ljósmyndunar frekar bágbornar. Sunnanvindurinn var feykisterkur svo við vorum hálfsmeyk um að þrífóturinn fyki um koll og sólinn skein úr vestri, beint upp Norðurárdalinn þannig að önugt var að ná boðlegum myndum niður dalinn.

Lilja og Lappi horfa til norðurs ofan af Sveinagungumúla.

Þegar horft er beint í norður af Sveinatungumúla er næsti hóll Selmúli og áfram í norður í blámóðu fjarskans er Gestabunga og Hádegisfjall. Örlítið norðaustur af Hádegisfjalli eru Snjófjöll og Tröllakikrja en þau sjást ágætlega á myndinni hér fyrir neðan við sjóndeildarhringinn beint upp af hundinum Lappa. Dalurinn niður af Selmúlanum er Sanddalur og ber hann það nafn niður að mótun hans og Norðurárdals. Vestan megin við Sanddalinn er er Sanddalsmúli og efsti hluti hans heitir Kambur sem rís upp í 617 metra hæð og inn af honum er Sandur. Galtarhöfði stóð við mynni Mjóadals sem er dalurinn vestan megin við Sanddalsmúlann.

Horft til austurs í átt að Hellistungum.

Ef við snúum höfði til austurs sjáum við Hellistungurnar hægra megin við gljúfrið ofan við steininn á myndinni. Gljúfrið er neðst í Hellisdal og eftir dalnum rennur Hellisá sem síðan sameinast Norðurá þarna rétt fyrir neðan. Þvert á gljúfrið sem Hellisá rennur í er Hellisgil og beint upp af því efst á Krókshálsi eru Sýrdalsborgir. Samkvæmt sögum var bæjarstæði Þorbjörns blesa landnámsmanns einhvers staðar þarna nálægt þessu gili og kallaðist bær hans Blesastaðir. Í Landnámu segir að Þorbjörn þessi hafi numið land frá Króki og upp allan Hellisdal. Sonur hans Gísli bjó síðan að Melum í Hellisdal en þarna langt uppi í Hellistungum er vatn kennt við hann, Gíslavatn.

Horft til suðvesturs niður Norðurárdal.

Beint í suður undir Sveinatungumúla er bærinn Sveinatunga og hálsinn sunnan við Norðurá er Þverárhlíðarháls. Þverárhlíðarháls skilur að Norðurárdal og Þverárhlíð. Sé horft í suðvestur sjáum við bæinn Krók. Steinhúsið þar reisti Brynjólfur Bjarnson árið 1938 en á þessum árum voru steinhús að rísa á jörðunum í Norðurárdal. Brynjólfur hóf búskap í Króki árið 1917 en hann keypti jörðina af Jóhanni Eyjólfssyni alþingismanni sem þá var nýhættur búskap í Sveinatungu. Torfbærinn sem steinhúsið leysti af hólmi stóð á svipuðum stað og steinhúsið stendur nú.

Horft til vesturs. Lappi, Lilja og Guðrún sitja á þúfunni efst á Sveinatungumúla.

Lítum nú til vesturs þar sem Baula gnæfir yfir Norðurárdal. Hvilftin á milli hennar og Mælifells er Sátudalur og norðan við Mælifell er Baulusandur. Þegar Baulusandinum sleppir tekur Litla Baula við og við hlið hennar er Skildingafell. Neðst í dalnum rennur Sanddalsá og mætir Norðurá þarna rétt fyrir neðan. Vestan við Sanddalsá er Hvammsmúlinn en í þeim múla er eina náttúrulega birkikjarrið á þessu svæði. Tengdafaðir minn sem oft leitaði rjúpna á þessu svæði sagði mér að ef norðanáttir væru ríkjandi hélt rjúpan sig í Hvammsskóginum en ef sunnanáttir voru ríkjandi héldu þær sig undir borgunum efst á Þverárhlíðarhálsinum.