Að taka kvikmyndir með stafrænni spegilmyndavél


Stafrænar spegilmyndavélar hafa tekið feykna miklum framförum á undanförnum árum. Svo miklum að nú eru þær orðnar nothæfar til vandaðrar kvikmyndatöku jafnt sem ljósmyndunar. Vélin sem ég nota heitir Canon 5D Mark II og er fyrsta spegilmyndavélin sem tekur kvikmyndir í gæðum sem jafnvel atvinnumenn eru sáttir við en þú þarft ekki endilega að eiga svo fullkomna vél til að taka prýðilegar kvikmyndir. Staðan er sem sagt sú í dag að tæknilega er þér ekkert að vanbúnaði en góðri upptöku nærð þú samt ekki nema þú sért með grunnstillingar á hreinu. Greinin sem hér fer á eftir fjallar einmitt um það.


Að gera vélina tilbúna til kvikmyndatöku

Fyrsta versið er auðvitað að stilla myndavélina þannig að kvikmyndun með henni sé möguleg. Hér til hliðar er kvikmynd sem sýnir helstu stillingar. Kvikmyndinni fylgja ítarlegar skýringar hvers vegna þessi og hin stillingin er notuð. Til að finna þær skýringar þá smellirðu á Vimeo krækjuna. Síðan eru ágætis myndrænar leiðbeiningar á vefnum Canon5Dtips.

Myndskerpa og upplausn

Ad taka kvikmyndir med spegilmyndavel 1Tilveran væri svo mikð einfaldari ef heimurinn gæti nú sammælst um einn staðal eða eina leið til að leysa hlutina. En það er nú sjaldnast svo. Í ýmsum skúmaskotum heimsins er verið að reyna að finna lausnir við sömu vandamálunum. Síðan finnast lausnir en þær eru ekki endilega þær sömu. Þangað til nýlega voru þrír skerpustaðlar ráðandi. PAL staðallinn var notaður um mestalla Evrópu, Asíu og Ástralíu. NTSC staðallinn var notaður í Norður-Ameríku. Þriðji staðallinn, SECAM er kominn frá Frökkum. Hann er notaður bæði í Asíu og Afríku. PAL og SECAM staðlarnir sýna 25 ramma á sekúntu en NTSC staðallinn sýnir 30 ramma á sekúntu.

Í dag eru háskserpustaðlar að taka við vegna stafrænu byltingarinnar. Enn er rammatíðnin ólík. Að mínu viti er skynsamlegast að velja hæstu mögulegu upplausn sem er 1920 x 1080 pixlar. Vissulega verða skrárnar plássfrekari en gæðin verða betri.

Ljósnæmi

ISO stillingin segir til um ljósnæmi myndflögunnar. Því hærri sem ISO stillingin er, því næmari verður flagan fyrir ljósmagninu í umhverfinu. Í rökkri myndi maður stilla á hátt ISO. Einn hængur er samt á þessu. Gæði myndarinnar rýrnar með hækkandi ISO. Suð eykst og myndin verður grófari. Af einhverjum ástæðum sem ég þekki ekki er einnig best að halda sig við ISO stillingu sem er margfeldi af 160 eða því sem næst þegar þú ert að kvikmynda með Canon 5D Mark II eða III. Það gefur víst besta mynd ef þú stillir á 160, 320, 640, 1250. Best er að halda sig við eins lágt ISO og maður kemst upp með.

Ljósop

Auga myndavélarinnar er ljósopið. Stærð þess stýrir hversu miklu ljósi er hleypt inn á myndflöguna. Því lægri sem ljósopstalan er því stærra er ljósopið. Þegar við stillum á stórt ljósop verður brennivídd myndarinnar grunn. Það þýðir að aðeins lítill hluti myndarinnar verður skarpur. Þegar við stillum á lítið ljósop verður brennivídd myndarinnar djúp en þá verður stór hluti myndarinnar skarpur. Að leika sér með dýptarskerpuna gefur skemmtilega möguleika. Það er auðvitað þannig að birtan í umhverfinu kallar á ákveðna stærð ljósops þannig að lýsingin verði rétt. Er þá eitthvað hægt að leika sér með stærð ljósopsins? Já því ef myndin verður of dökk vegna þess að ljósopið er of lítið þá kemur ISO stillingin til bjargar. Maður eykur bara ljósnæmi myndflögunnar með því að hækka ISO stillinguna.

Lokhraði

Fyrir framan myndflöguna er tjald sem opnast og lokast þegar smellt er af. Hraði tjaldsins stýrir því hversu myndavélin hleypir mikilli birtu inn á myndflöguna. Hér er því kominn þriðji möguleikinn á því að stýra lýsingu myndar. Reyndar á það við um ljósmyndun en ekki kvikmyndun því reglan er sú að til að taka upp kvikmyndir á stafræna spegilmyndavél er lokhraði tjaldsins stilltur á um það bil tvöfaldan rammafjöldan. Ef maður er taka kvikmynd með 25 ramma upptöku á sekúntu stillir maður lokhraðan á 50. Það er samt ekki hundrað í hættunni þótt maður svindli á þessu. Birtan þarf að vera rétt. Við forgangsröðum svona. Fyrst skal stilla ljósopið. Næst stillir maður ljósnæmið (ISO) og síðast lokhraðann. Ef við þurfum að hafa lokhraðann annan en mælt er með þá gerum við það því áhrifin eru ekki svo mikil á myndgæðin.

Hvítjöfnun

Birtuskilyrðin í umhverfinu geta verið mjög svo misjöfn. Litatónarnir frá dagsbirtunni eru allt aðrir en litatónar birtu frá glóperu. Það þarf að segja myndavélinni hvernig hún á að meðhöndla birtuna. Það gerir maður með því að stilla hvítjöfnunina (white balance). Oftast dugir velja fyrirframgefnar stillingar en stundum er ljósgjafinn blandaður. Til dæmis sólaljós sem kemur inn um glugga og glópera sem lýsir upp herbergi. Þá getur verið nauðsynlegt að handstilla hvítjöfnunina.

Hljóð

Að taka upp almennilegt hljóð á starfræna spegilmyndavél er afskaplega erfitt vegna þess að innbyggði hljóðneminn er ekki góður. Ef maður vill fá sæmileg hljóðgæði verður maður að kaupa hljóðnema sem maður setur í skóinn fyrir flassið. Ef maður vill reyna að ná enn meiri gæðum tekur maður hljóðið upp sérstaklega og setur hljóð og mynd saman eftir á í klippiforriti.

Skerpa

Fátt er leiðinlegra en að hafa tekið kvikmynd af einhverju myndefni til þess eins að sitja uppi með myndskeið sem öll eru í móðu vegna þess að skerpan var vitlaust stillt. Best er að treysta ekki á sjálfvirka skerpustillingu og stilla skerpuna oftast handvirkt. Þannig er auðveldara að halda myndefninu skörpu þótt það færi sig til og frá. Auðveldara en ekki endilega auðvelt. Að halda skerpunni réttri kallar á æfingu. Þessi litli skjár hjálpar ekki heldur þannig að mér hefur þótt mikilvægt að nýta möguleikann á starfrænum aðdrætti og stilla skerpuna á fullum aðdrætti. Það er samt ekki hægt þegar maður er að taka kvikmyndir á hlaupum. Við þær aðstæður notar maður hraðskerpustillihnappinn (AF-ON) á Canon 5D Mark II.