Skógarlyngrós og skerpuröðun


Einn af föstu liðunum í tilveru fjölskyldunnar er gönguferð snemma að vori til að kanna hvort einn af vorboðunum sé kominn á kreik. Vorboðinn sá er hreint ekki íslenskur en í huga fjölskyldunnar boðar hann samt að íslenskt sumar er handan við hornið. Ég er að tala um skógarlyngrósina í Grasagarði Reykjavíkur. Um leið og sól fer að hækka á lofti lætur hún blekkjast og blómstrar ægifallegum blómum. Skógarlyngrósin er frá Vestur – Kína og þekkir ekki hversu brottgengt íslenska sumrið getur verið. Áður en varir hefur frostið tekið völdin á ný og þá verður brátt um blómstrið.

Á öðrum degi páska yljaði sólin borgarbúum og fjölskyldan ákvað að heimsækja skógarlyngrósina og sjá hvort hún væri farin að hugsa til sumarsins. Eins og okkur grunaði reyndist svo vera. Reyndar var aðeins eitt blóm útsprungið en fallegt var þetta eina blóm. Ég ákvað að taka mynd af þessu fyrsta blómi sumarsins og gera tilraunir um leið með tækni sem ég var nýbúin að lesa um. Þessi tækni kallast ,,Focus stacking". Hvað það þessi tækni kallast á íslensku veit ég ekki? Ef til vill má bara kalla hana skerpuröðun.
Þessi mynd var tekin með skerpuna stillta á gula depilinn fremst á myndinni. Þrátt fyrir að ljósopið hafi verið mjög lítið, f20 þá næst ekki að hafa allt blómið í skerpu. Samt er bakgrunnurinn orðinn áberandi sem er ekki gott. Með skerpuröðun hefði verið hægt að leysa þetta. Ég reyndi það en örlítill andvari hreyfði blómið nógu mikið til þess að það var ekki hægt að raða myndunum saman.
Skerpuröðun kallast það þegar nokkrar myndir eru teknar af sama myndefninu og skerpan er stillt á mismunandi staði á því. Myndunum er síðan steypt saman í eftirvinnslunni og úr verður mynd þar sem myndefnið er í allt í fullkominni skerpu. Í fyrstu velti ég fyrir mér hver væri eiginlega ávinningurinn af öllu þessu veseni. Er ekki alveg eins hægt að minnka ljósopið og stækka svæðið sem skerpan nær yfir á myndinni? Nei það er ekki alveg þannig. Stundum er ómögulegt að ná öllu myndefninu í skerpu. Þetta á sérstaklega við þegar myndefnið er stækkað mikið upp eins og í macro ljósmyndun. En það getur einnig verið gott að geta gripið til skerpuröðunar í landslagsljósmyndun og þegar lýsingin er ekki nógu góð.

Skerpuröðun gefur ljósmyndaranum meira vald yfir skerpunni vegna þess að þegar ljósopið er minnkað þarf ljósið að troða sér í gegnum minna op og það dregur úr skerpunni. Ástæðan er sú að ljósið dreifist þegar það er komið í gegn. Þessi fyrsta tilraun mín til skerpuröðunar tókst ekkert sérlega vel enda krefst hún æfingar eins og allt annað ef árangur á að nást. Ég sá hins vegar að það er vel þess virði að ná tökum á þessari tækni.
Þessi mynd af óútsprungnu blómi skógarlyngrósarinnar var tekin með ljósopið stillt á f8. Hér hefur myndefnið allt náðst í góða skerpu en það er allt of mikið að gerast í bakgrunninum sem dregur athyglina frá myndefninu.
Hér var tækninni skerpuröðun beitt. Ljósopið var stillt á f2.8 og sex myndir teknar og þeim steypt saman í eina mynd. Myndefnið er nokkurn vegin allt í góðri skerpu og bakgrunnurinn dregur athyglina ekki eins frá myndefninu sjálfu. Reyndar er smávegis hreyfing á laufblaðinu fyrir miðri mynd sem skýrist af andvaranum sem gerði mér erfitt fyrir.
Til að ná góðum myndum með þessari tækni er nauðsynlegt að tryggja að það sé engin hreyfing á myndefninu eða myndavélinni. Góður þrífótur er því bráðnauðsynlegur og ef myndefnið blaktir í vindinum eins og skógarlyngrósin þá þýðir lítið að reyna nema í logni.