Saga ljósmyndunar - upphafið


Ljósmyndun felur í sér að varpa ljósi á ljósnæman flöt. Ljósið teiknar mynd af myndefninu og ljósnæmi flöturinn drekkur ljósið í sig og varðveitir það sem mynd. Hugmyndin um ljósmyndun er ævagömul og sennilega var hún þekkt meðal Kínverja og Forn – Grikkja á 5. öld fyrir krist. Enda er enska orðið ljósmyndun dregið af grísku orðunum photos sem merkir ljós og graphein sem merkir að teikna. Á 11. öld fann Íraskur vísindamaður upp tækni sem kölluð hefu r verið camera obscura. Það er samt ekki hægt að segja að hér sé um eiginlega ljósmyndun að ræða. Ljósi var hleypt í gegnum lítið gat á myrkvuðu rými. Mynd af því sem fyrir utan var varpaðist á hvolfi á flötinn á móti og ef það átti að varðveita myndina varð að kalla til drátthaga menn til að teikna myndina upp.

Eiginlega ljósmyndun má rekja til tilrauna franska uppfinningamannsins Joseph Nicéphore Niépce og efnafræðingsins Louis – Jacques – Mandé Daguerre. Niecpe hóf tilraunir sínar árið 1793 en hver myndataka tók ógurlegan tíma og fyrirhöfn. Það tók einar átta klukkustundir að taka eina mynd. Eðli málsins samkvæmt dugði tækni Niécpe aðeins til að taka myndir af föstum hlutum því engin lifandi vera situr kyrr svo lengi. Þessar fyrstu myndir fölnuðu fljótt en árið 1824, eða þar um bil, tókst honum fyrst að taka varanlega mynd. Daguerre einbeitti sér að því að reyna að stytta tímann sem tók að taka hverja mynd og náði töluverðum árangri þar. Tæknin hans hefur verið kölluð Daguerrotype.

sagaljosmyndunar intro Cameraopscura1
Vissulega voru fleiri frumkvöðlar að gera tilraunir á svipuðum tíma og frönsku félagarnir en næsta stóra byltingin kom árið 1871 þegar enski áhugaljósmyndarinn R. L. Maddox uppgötvaði hvernig hægt væri að útbúa plötu sem héldi ljósnæmi sínu þrátt fyrir að vera þurr. Áður varð platan að vera blaut sem var auðvitað heilmikið vesen. Uppgötvun þurrplötunnar gerði það að verkum að ljósmyndun varð miklu mun aðgengilegri en áður. Hægt var að taka myndir á broti úr sekúntu, myndavélar urðu smærri þannig að hægt var að bera þær um og ekki þurfti alltaf að stilla þeim upp á þrífót í hvert sinn sem taka átti mynd.

Heimildir


About.com. (Án árs). A brief history og photography. Sótt 1. apríl 2013 af
History of photography. (Án árs). Encyclopædia Britannica. Encyclopædia Britannica Online Academic Edition. Encyclopædia Britannica Inc. Sótt 1. apríl 2013.
School Curriculum in Photography. (Án árs). History – What is photography?. Sótt 1. apríl 2013 af scphoto.com/html/history.html.