Betri árangur í landslagsljósmyndun


Að ná árangri í landslagsljósmyndun felur svo miklu meira í sér en aðeins það eitt að arka um fjöll og firnindi í leit að áhugaverðu myndefni. Í myndskeiðinu hér fyrir ofan deilir landslagsljósmyndarinn Robert Rodriguez Jr hugleiðingum sínum um landslagsljósmyndun og hvernig má ná betri árangri.

Rogriguez talar um mikilvægi þess að ljósmyndarinn sé meðvitaður um listræna hlið ljósmyndunnar. Að þegar hann tekur mynd þá hugleiði hann hvaða hughrif myndefnið hafi á hann. Hvaða þýðingu hefur það fyrir hann. Landslagsljósmyndun er ekki aðeins myndefnið sjálft heldur skiptir stemmingin og birtan fullt eins miklu máli.

Það er alls ekki sjálfgefið að þótt flott myndefni sé fundið að það skili sér í góðri ljósmynd. Það er alls ekki víst að veðurskilyrðin séu hagfelld í fyrsta skiptið sem maður kemur á staðinn. Nema maður sé fáránlega heppinn en þá er eins víst að maður stilli ljósop eða eitthvað annað kolvitlaust. En það er einmitt þannig sem maður lærir og því er best að koma aftur og aftur á sama staðinn því ef maður þekkir umhverfið þarf maður ekki að eyða tímanum í að leita að rétta sjónarhorninu eða réttu stillingunum loksins þegar veður- eða birtuskilyrði eru góð.