Jólasveinar, einn og átta

Allt um textann og lagið

Hvert mannsbarn á Íslandi þekkir textann um jólasveinana níu sem er sunginn á jólaskemmtunum um land allt á hverju ári. Hvað textinn fjallar um hefur alltaf verið ráðgáta en nú er sú gáta leyst. Hvaðan kemur síðan lagið sem textanum fylgir? Hér er þeim spurningum svarað.

Íslenski textinn

Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég lærði textann við þjóðvísuna um jólasveinana einn og átta en ég var ekki gamall þegar það var. Ótal jólaböll með tilheyrandi hringdansi um jólatré festu textann rækilega í minninu. Til að læra hann dró ég upp myndir af innihaldi hans upp í huga mér mér. Fljótlega fór ég samt fór að setja spurningamerki við þennan texta. Mér þótti hann, eins og reyndar flestum sem lesa hann, eitthvað undarlegur.

Fyrsta myndin sem dróst upp í huga mér var af níu hvítskeggjuðum körlum með rauðar skotthúfur sem óðu snjóinn niður snarbratta fjallasali á leið sinni til byggða. Það undraði mig að jólasveinarnir voru sagði aðeins vera níu. Ég taldi mig vita með vissu að þeir væru þrettán. Þegar Jón Arason safnaði sögum úr íslenskri þjóðmenningu upp úr miðri nítjándu öld fann hann heimildir um þrjá jólasveinahópa. Einn hópurinn var með níu karla, annar með þrettán og sá þriðji með átján. Reyndar er það svo að í heimildum um jólasveina í íslenskri þjóðmenningu má finna yfir áttatíu jólasveinanöfn og einnig nokkur nöfn á jólameyjum. Ætli það sé ekki best að sammælast um þá þrettán jólasveina sem birtast fyrst í heimildum um miðja átjándu öld. Síðan er ágætt að hafa samræmi á milli fjölda jólasveina og jóladaga.

Snúið skal nú aftur að þjóðvísunni. Texti hennar hefur alltaf verið ráðgáta en núna er hugsanlegt að Lára Magnúsdóttir sagnfræðingur hafi leyst hana. Lausnina fann hún í Árna sögu biskups sem skrifuð var á fjórtándu öld og segir frá atburðum sem áttu sér stað á síðasta hluta þrettándi aldar. Á þeim tíma voru hörð átök milli konungsvalds og kirkjuvalds víða í Evrópu. Noregskonungur var þá nýbúinn að ná völdum á Íslandi. Útsendari hans, Loðinn leppur, lagði nýja lögbók í nafni konungs fram til samþykktar á alþingi. Níu höfðingjar voru ekki par sáttir við þessa lögbók og sendu þeir einn úr hópnum til Noregs til að tala máli þeirra og afhenda konungi bréf með rökstuðningi sínum. Loftur hét sá maður sem hélt á fund konungs. Eitthvað gekk honum illa að ná áheyrn Eiríks Magnússonar prestahatara sem þá var konungur Noregs. Sennilega hefur mál níumenninganna frá Íslandi þótt léttvægt því mikið gekk á í Noregi á þessum tíma vegna deilna á milli konungs og kirkju. Jólasveinarnir níu er sennilega vísun í þessa níu íslensku höfðingja.

Önnur myndin sem barnið dró upp í huga sér var af Jóni bónda á Völlum sem fylgdi í humátt á eftir körlunum níu. Ég söng textann reyndar alltaf vitlaust því hjá mér voru jólasveinarnir alltaf á undan Jóni á Völlunum. Ég sá jólasveinana einnig fyrir mér búa sér náttstað einhvers staðar í fjöllunum kvöldið áður en þeir komu til byggða. Að öllum líkindum er texti þjóðvísunnar að vísa til þess að Loftur kom bréfi níumenninganna lokst til skila á Jónsvöllum í Noregi og það að þeir hafi farið að hátta vísi til biðar Lofts eftir því að fá áheyrn. Jónsvellir þessir er landssvæði sem var í eigu klaustursins í Björgvin í Noregi.

Hver er þessi Andrés? Barnið sá auðvitað Andrés önd fyrir sér enda var hann helsta bókmenntahetja æsku minnar. Hann sá ég alltaf fyrir mér standa til hliðar og fylgjast með jólasveinunum ganga hjá. Texti þjóðvísunnar vísar að sjálfsögðu ekki til Andrésar andar heldur til Andrésar Pálssonar. Andrés þessi var einn af höfðingjunum í Noregi sem börðust gegn auknum völdum kirkjunnar. Erkibiskupinn í Noregi bannfærði Andrés. Andrés dó síðan bannfærður árið 1282 eða 1283. Það að hann dó bannfærður þýddi að lík hans mátti ekki í kirkju koma og ekki mátti hann jarðsetjast í kirkjugarði. Barnið sá auðvitað ekta íslensk tröll koma niður hlíðar fjallsins og hrifsa Andrés önd með sér þar sem hann stóð og fylgdist með jólasveinunum. Hans örlög voru sem sagt að vera étin af tröllum. Tröllin í vísunni vísa samt ekki í þær ómennsku verur sem íslensku tröllin eru heldur í útilegumenn og meðal þeirra átti höfðinginn að hvíla samkvæmt dómi kirkjunnar.

Síðasta mynd barnsins var af fallegri sveitakirkju. Hljómur kirkjubjallanna ómaði um fjöllin þegar jólasveinarnir komu til byggða og bjöllurnar hringdu jólin inn. Raunveruleikinn var ekki alveg svo fallegur. Menn voru ekki sáttir við að örlög Andrésar Pálssonar yrðu að jarðsetjast meða útilegumanna og brutu þeir líkinu leið inn í kirkjuna. Í þeim atgangi segir að ein kirkjusúlan hafi brotnað en ætlunarverkið tókst. Andrés fékk kirkjulega útför og kirkjuklukkunum var hringt.

 

Ameríski textinn

Amerískur texti lagsins byrjar sem hátimbraður tregasöngur. Ástmaður stúlkunnar Clementine virðist syrgja andlát hennar mjög. Fljótlega súrnar þó yfir textanum og húmorinn verður alsráðandi. Strax í öðru erindi er farið að fjalla um fætur hinnar ólánsömu stúlku. Fætur í yfirstærð, skór úr kössum og flís í tá valda því að hún steypist í ána. Á bakkanum stendur ástmaðurinn og lætur það alveg vera að reyna að bjarga henni. Annað hvort risti ástin ekki djúpt eða hugrekki skorti. Clementine drukknar og er lögð til hvílu í kirkjugarði þar sem hún sinnir sínu lokahlutverki á þessari jörð. Að vera áburður fyrir gróður jarðar. Námumaðurinn, faðir stúlkunnar, deyr einnig og hvílir við hlið dóttur sinnar. Í fyrstu sækja minningar um atlot ástmannsins og Clementine á hann en þar sem hún er orðin liðið lík þykir honum það ekki lengur við hæfi. Hann fer því að leggja lag sitt við systur látinnar ástkonu sinnar og þá gleymst Clementine fljótt.

Textinn er ákaflega nöturlegur og ýmislegt í honum er á mörkum siðferðilegs velsæmis. Af þeim sökum telst hann nú varla heppileg barnagæla. Það er frekar broslegt að einmitt þannig hefur þetta lag og texti gjarnan verið notað. Margur Ameríkaninn ólst nefnilega upp við að foreldrar sungu þennan texta fyrir þá. Það verð ég nú að segja að þá er íslenski textinn betri. Þótt hann hafi þótt óskiljanlegur þá vekur hann ekki upp margar siðferðilegar eins og sá ameríski gerir. Að minnskta kosti voru myndirnar sem ég dró upp í huga mér sem barn þegar ég lærði íslenska textann ósköp saklausar. Hvaða myndir ætli dragist upp í huga ameríska barnsins?

Hvað um það þá er talið að textinn og reyndar lagið einnig sé samið af Percy Montrose árið 1884. Hvort hann sé upprunalegur höfundur er ekki á hreinu því stundum er Barker Bradford sem gaf út svipað lag og texta árið 1885 eignaður heiðurinn. Síðan er oft bent á texta lagsins Down by the River Liv´d a Maiden frá 1863 eftir Henry S. Thomson sem hugsanlegs áhrifavalds. Einnig er hugsanlegt að textinn sé saminn undir áhrifum texta lags sem var ákaflega vinsæll meðal spænskra námumanna á þessum tíma. Það var lagið Romance del Conde Olinos o Niño sem var tragiskur ástarsöngur. Þann texta samdi Gerald Brenan, breskur rithöfundur sem bjó mest allt sitt líf á Spáni.

Jolasveinar einn og atta 2 2020

Lagið

Lagið er afskaplega einföld lagasmíð. Það er spilað í þremur fjórðu takti og hvert erindi er átta taktar. Oftast er það spilað í F dúr en tóntegund er bara tóntegund. Ekkert er rétt í þeim efnum. Sé lagið spilað í F dúr dugir að nota þrjá hljóma, F, C7 og Bb, I., V. og IV hljóm fimmundahringsins.

Vilji maður spila lagið með C dúr hljómagangi en áfram í F dúr þá setur maður klemmu á fimmta band. Hljómarnir yrðu þá C, G7 og F.

Jolasveinar einn og atta 3 2020

Síðan má auðvitað spila lagið á ýmsan annan hátt. Til dæmis með því að krydda hljómaganginn og bæta hljómum ii, og vi í töktum fimm, sex og sjö og spila hljóm V sem dúr hljóm en ekki sem sjöundarhljóm. Hér fyrir neðan má heyra hljómagangin, báða útgáfurnar. Afsakið E bassann sem dróð sér óboðinn í síðasta hljóminn í seinni útgáfunni.

Jolasveinar einn og atta 2020

Lag þetta hefur farið víða og verið notað við ýmiskonar tilefni. Til dæmis sem nýárssöngur hjá Gyðingum og Kínverjum, sem hernaðarmars hjá Þjóðverjum, sem hvatningasöngur hjá íþróttafélögum og stjórnmálaöflum og síðast en ekki síst sem jólatréssöngur á íslenskum jólatrésskemmtunum.
Lagið hefur oft heyrst í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og fjölmargir listamenn hafa gert það að sínu. Hér fyrir neðan eru þrjár ólíkar útgáfur af laginu.

Bing Crospy

Það er ekki vitað hvenær lagið var fyrst tekið upp. Bing Crospy tók lagið upp
þann 14. júní 1941 og lagið komst í 20. sæti Billboard listans. 

Bobby Darin

Hér flytur Bobby Darin sína útgáfu af Oh, My Darling Clementine.
Eitthvað hefur hann umsnúið textanum.

Neil Young

Hér flytur Neil Young og Crazy Horse rokkaða útgáfu af laginu. Ef þú vilt spila með notaðu hljómana A, E, Bm, F#m and D.