Carrington gítarinn


Ekki hef ég hina minnstu hugmynd um hvað fékk mig til að fara að læra að spila á gítar. Tónlistaruppeldi mitt var svo gott sem ekkert. Það er ef til vill ekki sanngjarnt að segja að það hafi ekki verið neitt því Ríkisútvarpið sendi út eina þrjá útvarpsþætti með léttari tónlist og á þá hlustaði maður samviskusamlega á í viku hverri. Þetta voru Óskalög sjómanna, Óskalög sjúklinga, og Lög unga fólksins.

carrington guitar

Þrátt fyrir fábreyttan tónlistarlegan bakgrunn fékk ég þráhyggjukast, arkaði í bæinn og keypti mér Bjarton gítar og barðist síðan við að fá einhver hljóð af viti úr honum. Sannast sagna þá var glíman við gítarinn erfið þarna í upphafi. Hljóðfærið skelfilegt og ég gat ekki einu sinni gert upp við mig hvernig ég ætti að snúa honum. Að endingu ákvað ég að snúa hálsinum til hægri og þá fór þetta að ganga betur. Fljótlega fór blessaður Bjarton gítarinn að hamla framförum mínum svo ég fór aftur á stúfana í leit að hljóðfæri.

carrington guitar1

Í Dallas í Texas fann ég gítarsmið, Christopher Carrington, sem smíðaðar klassíska gítara á viðráðanlegu verði. Hann var tilbúinn að smíða vinstri handar gítar fyrir mig án þess að rukka aukalega fyrir það. Sagði að eini munurinn í smíðinni vær sá að hann þyrfti að hugsa á hvolfi og það kostaði ekkert. Í upphafi árs 1997 fékk ég gítarinn í hendurnar í fyrsta sinn og þvílíkur munur. Þessi gítar hefur verið tryggur förunautur minn síðan þá og veitt mér margar ánægjustundir.

Hér fyrir neðan má sjá smiðinn að störfum.