TablEdit


Fyrir þá sem eru að iðka tónlist að einhverju marki er gott að eiga og kunna skil á einhverjum hugbúnaði til að skrifa tónlist. Það er úr mörgu að velja. Hægt er að finna forrit sem kosta lítið sem ekki neitt en eru furðu öflug þrátt fyrir það. Einnig er hægt að finna gríðarlega umfangsmikil forrit sem kosta bæði lifur og lungu. Hér segi ég frá forritinu TablEdit sem varð fyrir valinu hjá mér. Það tilheyrir fyrri hópnum. Kostar aðeins en enga formúu þó.

Tabledit

Fyrir nokkrum árum síðan fór ég að velta fyrir mér hvort ég gæti ekki fundið einhvers staðar einfalt forrit til að skrifa niður tónlistina sem ég er að myndast við að spila á gítarinn minn. Hafandi takmarkmaðan áhuga á að læra á flókið tónlistarforrit og ekkert vit á forritum sem þessum þá voru góð ráð dýr. Eina tónlistarforritið sem ég þekkti var Sibelius og það var aldeilis ekki gefins og við fyrstu sýn virkaði það þrælflókið. Eflaust er það bráðsnjallt fyrir þá sem fást við dýpra tónlistargrúsk en ekki fyrir þá yfirborðsmennsku sem ég iðka.

Forsendurnar sem ég gaf mér voru að forritið væri ódýrt, einfalt í notkun og hentaði gítarleikurum. Einnig fannst mér grundvallaratriði að það væri þjált nótnaskriftarforrit og spilaði útsetningarnar sem ég er að reyna að skrifa upp og spila. Mér fannst skipta minna máli að forritið gæfi möguleika á upptökum. Ég þóttist finna það sem ég leitaði að í forriti sem heitir TablEdit. Það er hannað með þarfir gítarleikara í huga enda er það skrifað af gítarleikara, frönskum að nafni Matthieu Leschemelle. Notkunarmöguleikarnir eru samt ekki einskorðaðir við gítar og ekki skaðar að uppfærslurnar þarf ekki að kaupa heldur getur maður uppfært forritið án þess að þurfa að greiða nokkuð fyrir.

Það hvarflar ekki að mér að leggja þetta forrit að jöfnu við Sibelius, Finale eða Encore. Það væri eins og að setja glingur og gimsteina í sama skartgripaskrínið. Skynsamlegast er að sníða sér stakk eftir vexti og velja verkfæri sem fullnægir þörfunum. Til hvers að kaupa forrit fyrir mörg hundruð dollara þegar maður getur fengið það sem maður þarf fyrir fimmtíu? Ég nota TablEdit fyrst og femst til að hljálpa mér að lesa verkin sem ég ætla að reyna að spila. Skrifa útsetninguna upp í forritinu og læt það spila hana fyrir mig. Þannig er ég fljótur að átta mig á því hvort ég sé sáttur við útsetninguna og vilji leggja á mig að læra hana. Það er nefnilega svo að þegar kemur að nótum er ég afskaplega hæglæs. Er eins og barn sem er rétt nýbúið að læra að hljóða sig í gegnum lestexta. Orkan fer öll í lesturinn og þess vegna tekur langan tíma að meðtaka innihaldið. Til að gera þetta þarf ég nú ekki flókið forrit.

Mér þykir helsti kostur forritsins vera sá að það er ýmist hægt að skrifa tónlist á hefðbundinn hátt með nótum eða með því að skrifa í TAB kerfinu. Í fyrstu nýtti ég mér nótnaskriftina einvörðungu en eftir að ég kynntist TAB nýti ég mér nótnaskrift og TAB jöfnum höndum. Annars er besta leiðin til að kynna sér TablEdit sú að hlaða niður prufuútgáfu og prófa sig áfram. Hér má finna leiðbeiningarmyndband.

Mér þykir ekki vera mikið til af tónlist á netinu sem er skrifuð í TablEdit. Ég held að stærsti lagabankinn sé hér. Menn virðast halda útsetningum sínum fyrir sig. Það er ekki nauðsynlegt að eiga forritið sjálft til að lesa tef skrár en það er heiti þeirra skráa sem forritið býr til. Það er hins vegar nauðsynlegt að eiga sérstakt forrit, Tef Viewer sem les þessar skrár en því er hægt að hlaða ókeypis niður. Skráðir notendur eru núna 17.783 frá öllum heimshornum, þar af eru tveir Íslendingar. Ég og einn annar.

Það er eflaust hægt að finna ýmis önnur forrit á vefnum sem hefðu fullnægt þessum þörfum mínum og hefðu jafnvel ekki kostað mig neitt. Svona fyrir forvitnis sakir leitaði ég á netinu að forritum til að skrifa TAB og það þurfti svo sem ekki aðspyrja að því að úrvalið er hreint ágætt.