Romanza

Óþekktur höfundur

Ófáir byrjendur í klassískum gítarleik hafa heillast af Rómönzunni og séð sjálfa sig í hillingum spila hana. Ef til vill er ekki svo vitlaust að segja að Rómanzan sé Stairway to heaven klassíska gítarsins. Þetta átti svo sannarlega við um mig þegar ég var að byrja að fikra mig áfram með gítarinn. Það er svo sem ekkert undarlegt að fólk heillist af þessu lagi því laglínan grípur einhvern vegin ímyndunaraflið og lagið hentar klassíska gítarnum einstaklega vel.

romanza intro

Það veit enginn fyrir víst hver samdi Rómönzuna en margir hafa verið nefndir til sögunnar. Þar á meðal eru Antonio Rubira, David del Castillo, Francisco Tarrega, Frendando Sor og fleiri og fleiri. Lagið er sennilega samið á Spáni eftir miðja nítjándu öld enda stíll þess dæmigerður fyrir dægurtónlist þess tíma. Fyrsta þekkta upptakan á laginu er frá Madrid á árunum 1897 – 1901. Einn af þeim sem hafa sagst vera höfundur lagsins er Narciso Yepes en það getur nú varla staðist því upptakan frá Madrit var gerð fyrir fæðingu Yepes. Yepes má þó eiga það að útsetning hans á laginu og spilun hans í frönsku myndinni Jeux interdits gerði Römönzuna víðfræga um allan heim.

Romanzan er ekkert óskaplega erfið að spila tæknilega séð en leynir þó á sér. A kafli lagsins er skrifaður í e-moll. Laglínan hleypur upp og niður e strenginn á meðan hinir strengirnir fá að hljóma opnir. Hér þarf að gæta þess að milliröddin yfirgnæfi ekki laglínuna. Fyrsti hluti lagsins er spilaður tvisvar en síðan tekur B kaflinn við en hann er skrifaður í e- dúr. Hann er heldur erfiðari tæknilega. Þar þarf nokkrum sinnum að grípa til þvergripa og yfirteygja semgetur verið dálítið snúið. Laginu líkur síðan með því að A kaflinn er endurtekinn einu sinni. Síðan er það spurning hvort spila skuli laglínuna alla með apoyando eða tirando. Tveir gítarkennarar hafa heyrt mig spila Rómönzuna. Annar vildi að ég spilaði laglínuna með apoyando á meðan hinn taldi slíkt óþarft. Ég hallast að því að nota apoyando áslátt til að ná fram sérstökum áhrifum eða tón en held að það sé hæpið að spila laglínuna út í gegn með þeim áslætti.

Þegar kemur að túlkun lagsins er ef til vill ekki hægt að segja að einhver leið sé hin eina rétta. Lagið má túlka á marga vegu eins og heyra má í myndböndunum hér fyrir neðan. Frábær flutningur sem hreyfir við manni á báðum tilvikunum er túlkunin er gerólík. Þegar ég spila Rómönzuna sé ég fyrir mér ástangið ungt par á heitum sumardegi. Ekkert kemst að í huga þeirra annað en ást þeirra til hvors annars. Þegar ég spila niðurlagið í A kaflanum sé ég fyrir mér að sólin er að lækka á lofti og geislar hennar varpa löngum skuggum á umhverfið. Þegar B kaflinn tekur við er sólin sest. Unga fólkið heldur heim í kvöldsvalanum. Að lokum er A kaflinn spilaður aftur og þá má sjá fyrir sér sólina rísa á nýjum degi. Eru þetta ekki bara ágætis stemmingar til að setja mann í gírinn til að túlka fallega laglínu Römönzunnar? Virkar fyrir mig.