Lagrima

Lag: Fransisco Tarrega

Tárrega er eitt af stóru nöfnunum í klassískum gítarleik. Hann samdi 78 verk sérstaklega fyrir gítar og umskrifaði ein 120 önnur verk. Tárrega tilheyrði rómantíska tímabilinu og eru tónverk hans sterklega undir áhrifum þess tímabils. Lagrima er eitt af eftirminnilegustu verkum Tárrega. Sagan segir að Tárrega hafi samið verkið í London í kringum 1881 þegar hann var þjakaður af heimþrá. Hundleiður á veðrinu í London, þokunni og enskri tungu samdi hann þetta hádramatíska smálag eftir hvatningu frá félögum sínum sem sáu hvernig tónskáldinu leið. Heitið á laginu gefur tóninn fyrir túlkun lagsins en Lagrima merkir tár. Önnur saga segir að Tárrega hafi samið lagið þegar hann kom heim úr tónleikaferð til Majorca í desember 1891 og fékk þær fregnir að dóttir hans hafi látist þremur dögum fyrr. Ekki veit ég nú hvor sagan er rétt en oftar hef ég heyrt þá fyrri.

Auga02

Lagið er einungis 16 taktar og form þess er AABBA. A hluti lagsins og fyrstu átta taktarnir eru í E-dúr og B hluti lagsins er í E-moll. Þótt Lagrima sé ekki tiltakanlega erfitt lag að spila kallar það á tíðar færslur upp og niður gítarhálsinn og huga þarf vel að fingrasetningunni til að spila lagið legato (bundið). Til að ná skiptingunum nægjanlega bundnum er nauðsynlegt að nota leiðsögufingur til að stýra griphendinni en jafnframt reyna að lágmarka ískurhljóðið sem myndast þegar fingri er rennt eftir bassastrengjunum. Einnig þarf að gæta þess að endurtekin B nótan yfirgnæfi ekki laglínuna. Stundum mætti til dæmis nota apoyando áslátt til að draga fram áherslur í laglínunni. Það verður lítið úr laginu ef það er ekki spilað með tilfinningu. Það er um að gera að prófa sig áfram með túlkunina. Prófa rubato hér og þar eða vibrato, brjóta hljóminn, leika sér með styrkleikabreytingar o.s.frv.