Hítarvatn 19. júlí 2016

Útlendingar alls staðar

Lurkum laminn sest ég niður til að skrásetja síðustu veiðiferð. Lurkum laminn segi ég því skrokkurinn er ansi stirður að morgni daginn eftir gönguferðina sem veiðiferðin í gær krafðist. Ég hef nokkrum sinnum gengið slóðann in að botni Hítardals þar sem norðurendi Hítarvatns er.Ég hef einnig veitt allt í kringum Hítarvatn. Mér hefur þótt gangan inn í botn dalsins erfiðisins virði því þangað sækir bleikjan og hún er heldur stærri en urriðinn í vatninu. Þarna inni í botni getur maður lent í ævintýralegri veiði. Það er samt aldrei á vísan að róa eins og sannaðist í þessari ferð.

Við vorum tveir saman í þessari ferð. Ég og Hörður félagi í smíðaklúbbnum. Gangan inn í botn dalsins tók okkur einn og hálfan klukkutíma enda hvergi stoppað á þeirri göngu. Eftir morgunverð gerðum við okkur klára til veiða. Allan tíman vorum við í fiski. Stöðugt var nartað og mörgum fisknum landað. Felstum þeirra var sleppt því þeir voru óttalegt smælki. Greinilegt var að fiskurinn hélt sig utarlega því allar tökurnar voru á fyrstu þremur metum inndráttarins. Ferðin var sem sagt ágætis æfing í löngum fluguköstum.

Hitarvatn july 2016

Inni í botni hittum við á feðga úr Reykjavík að veiðum. Þeir voru reyndir á þessum veiðislóðum og voru ágætis félagsskapur. Þarna voru einnig ungir Danir í tjaldi sem höfðu verið að veiðum á þessu svæði í þrjá sólarhringa og sögðust hafa veitt vel. Þegar við vorum að búa okkur til göngunnar til baka komu þrír ungir íslenskir strákar sem tjölduðu við ána sem rennur í vatnið við Vatnsendaklif. Á leiðinni til baka mættum við ungu pari frá Belgíu sem ætluðu að veiða í vatninu. Eins og góðir gestgjafar gera heilsuðum við þessum erlendu gestum og gáfum þeim holl ráð. Ég verð nú samt að eftirfarandi hugsun laust niður í huga minn:

,,Í fjöldamörg ár hef ég sótt sundlaugina í Laugardal því hún er í næsta nágrenni við heimili mitt. Nú er svo komið að ágangur erlendra ferðamanna hafa hrakið mig í Breiðholtslaug. Laxveiði og silungsveiðar í ám hefur mig langað mig að stunda en hef ekki getað leyft mér slíkt því ríkir erlendir ferðamenn eru tilbúnir að greiða svo hátt verð fyrir leyfin að venjulegir Íslendingar geta ekki leyft sér það. Þess vegna hefur maður lagt á sig gönguferðir sem þessa og hitt svipað þenkjandi Íslendinga. Eru erlendir ferðamenn að fara að hrekja mann úr Hítarvatni einnig?“

Vissulega eru þessar hugrenningar ósanngjarnar í garð erlendra ferðamanna því þeir eru bara fólk eins og ég sem vill upplifa íslenska náttúru. Það get ég mætavel skilið því stundum er ég erlendur ferðamaður. Ég vil samt ekki sjá ferðaiðnaðinn þróast með þeim hætti að hvert sem Íslendingurinn fer þá líður honum eins og gesti í eigin landi. Þar hafið þið það.

Hitarvatn july 2016 2

Ég veit ekki hvort félagi menn leggi í aðra veiðiferð með mér því í þessari ferð var ég dálítið í því að eyðileggja eigur hans. Fyrst braut ég toppinn á veiðistönginni hans með því að stíga á hannn. Síðan braut ég ferðastólinn hans. Stóllinn þoldi ekki þennan hlunk sem maður er orðinn.