Þingvallavatn 25. júní 2017

Það ætlar að verða bið eftir silungi á diskinn

Það ætlar að verða bið á því að nýveiddur silungur verði á kvöldverðarborðinu á þessu heimili. Okkur gengur ekkert að setja í fisk. Við hjónin ákváðum að skjótast í Þingvallavatn á sunnudagkvöldinu. Ég hafði varið deginum í steypuviðgerðir og var nokkuð ánægður með mig í lok dags. Fannst að við hjónin ættum það skilið eftir dagsverkið að fá kvöldstund saman við Þingvallavatn.
Aðstæður voru nákvæmlega þær sömu á á mánudaginn fyrir viku síðan þegar ég heimsótti vatnið síðast. Suðaustan hægur vindur. Rétt eins og á mánudaginn var heldur hvassar á Þingvöllum en í bænum. Að þessu sinni ákváðum við samt að skoða aðstæður í Vatnskoti. Ég var með fimmuna mína. Ég hefði kosið að vera með þyngri línu en það var ekki í boði að þessu sinni. Gamla hjólið gaf sig nefnilega í fyrstu veiðiferð sumarsins. Ég er að bíða eftir nýju hjóli frá Valdimarsson.
Rétt eins og í vikunni sem leið tók að lægja þegar leið á kvöldið. Ef við hefðum ekki átt að mæta í vinnu daginn eftir hefðum við örugglega veitt áfram en skynsemin varð lönguninni yfirsterkari og við héldum fisklaus heim.

Thingvellir 25 juni