Oddastaðavatn 11. júlí 2017

Smár var fiskurinn

Oddastaðavatn er í 57 metra hæð yfir sjávarmáli. Er um 3 ferkílómetrar að stærð og mesta dýpt þess er 18 metrar. Einn af veiðifélögum mínum sem er ættaður af Snæfellsnesi hefur veitt í vatninu. Hjá honum fengum smávegis upplýsingar um hvar algengt er að veiðimenn reyni að veiða. Við ókum norður fyrir vatnið og beygðum inn á vegslóða niður með vesturbakkanum. Þaðan er stuttur gangur niður að vatninu. Þegar við komum að var eldri maður að ganga frá eftir að hafa veitt frá hádegi fram að kvöldfréttum. Hann sagðist hafa fengið þrettán fiska frá pundi og upp í fjögur pund og sýndi mér ágætis fiska í kæliboxi sínu.

Oddastadavatn 2017 2
Við OddastaðavatnEitthvað eru nú upplýsingar um veiði vatninu orðnar úreltar því sá gamli sagði að bleikjan væri að hverfa og uppistaðan í aflanum væri urriði. Hið sama sagði félagi minn af Snæfellsnesinu sem sagði þó að í síðustu ferði hafi hann fengið tvær bleikjur og þótti það undrun sæta. Við hjónin ásamt Lilju dóttur okkar börðum vatnið til miðnættis og varð okkur lítt ágengt. Við vorum farin að halda að við næðum ekki einu sinni í eina soðningu. Þegar leið á kvöldið fór fiskur að gera vart við sig en hann var ósköp smár. Við hirtum þrjá fiska svona til að geta sagst hafa bragðað á fiskinum úr vatninu.

Oddastadavatn 2017 1