Þingvallavatn 26. júlí 2017

Fiskað með sex punda taum


Samkvæmt veðurspánni átti miðvikudagurinn að vera besti dagur sumarsins til þessa. Ég stóðst ekki mátið, tók daginn snemma og var kominn á bakkann svo snemma að allir tjaldbúar á Þingvöllum voru enn í fasta svefni. Lengi vel átti ég svæðið einn með fuglunum.

Thingvallavatn 26 july 2017 1

Veðurspáin var greinilega að ganga eftir. Það var heiðskýrt og suðaustan vindur, ekki mikill þó. Ég ákvað að skoða svæðið við Vatnskot. Niður undan Túntanganum er veiðistaður sem hefur verið kallaður Pallurinn. Þarnar háttar svo til að auðvelt er að vaða nokkuð langt út, fram hjá Grýluskeri og kasta við ágætar aðstæður út í dýpra vatn allt í kringum Murtuskerið.

Ég segi dýpra vatn en ekki endilega mjög djúpt. Í öllu falli tapaði ég einum fimm flugum eftir að hafa fest við botn. Þarna barði ég vatnið allan morguninn og festi í nokkrum silungum sem lítill fengur var í. Það er sennilega engin tilviljun að skerið hefur fengið heitið Murtusker. Ég reyndi nokkur köst vestan við Grýlusker áður en ég hélt heim um hádegisbil.

Thingvallavatn 26 july 2017 2Eyjurnar fyrir miðri mynd eru Grýlusker held ég. Veiðistaðurinn Grýla er hægra megin við við Grýlusker horft frá landi. Hægra megin á myndinni nær sér maður rétt vatna yfir Murtusker. Í baksýn er Búrfell vinstra megin og Botnssúlur fyrir miðri mynd.