Þingvallavatn 26. júlí 2017

Veðurspáin var greinilega að ganga eftir. Það var heiðskýrt og suðaustan vindur, ekki mikill þó. Ég ákvað að skoða svæðið við Vatnskot. Niður undan Túntanganum er veiðistaður sem hefur verið kallaður Pallurinn. Þarnar háttar svo til að auðvelt er að vaða nokkuð langt út, fram hjá Grýluskeri og kasta við ágætar aðstæður út í dýpra vatn allt í kringum Murtuskerið.
Ég segi dýpra vatn en ekki endilega mjög djúpt. Í öllu falli tapaði ég einum fimm flugum eftir að hafa fest við botn. Þarna barði ég vatnið allan morguninn og festi í nokkrum silungum sem lítill fengur var í. Það er sennilega engin tilviljun að skerið hefur fengið heitið Murtusker. Ég reyndi nokkur köst vestan við Grýlusker áður en ég hélt heim um hádegisbil.

Eyjurnar fyrir miðri mynd eru Grýlusker held ég. Veiðistaðurinn Grýla er hægra megin við við Grýlusker horft frá landi. Hægra megin á myndinni nær sér maður rétt vatna yfir Murtusker. Í baksýn er Búrfell vinstra megin og Botnssúlur fyrir miðri mynd.

Ég hefði reyndar getað náð einum ágætis silung ef ekki væri fyrir eigin klaufagang. Beint út af Murtuskeri setti ég í nokkuð öflugan fisk sem sleit sex punda tauminn eftir smá tog við veiðimanninn. Hvers vegna var ég nú með gamlan sex punda taum? Venjulega er ég með að lágmarki átta punda taum í Þingvallavatni og líður best með tólf punda taum. Þetta var einhver heimskuleg nýtni sem hafði þessar afleiðingar. Ergilegt? Já!