Rauðvínsbjartsýni

19. ágúst 2017

Á meðan ríflega hundrað þúsund Íslendingar nutu dásemda menningarnætur gengu kona, karl og hundur á fjall í leit að fiski í soðið. Um hádegisbil var kjöthleifum snarað á grillið og vel útilátinn hádegisverður etinn. Því næst var veiðibúnaði ásamt nesti troðið í bakpoka. Karlinum fannst mikilvægt að hafa 20 punda tauminn með í för. Sú ákvörðun verður að skrifa á ágætt ítalskt rauðvín sem drukkið var með steikinni, Ramon Roqueta, árgangur 2010. Að taka 20 punda taum með sér í hefðbundið silungsveiðivatn er auðvitað ekkert annað en rauðvínsbjartsýni.

Lagt af staðKarlinn og konan, miðaldra hjón í litlu gönguformi mönnuðu sig upp í gönguna með heitstrengingum um að aga sig í að ganga hægt og virðulega, stoppa oft til að standa ekki rennblaut af svita á vatnsbakkanum þegar upp væri komið. Annað gekk eftir. Hjónin gengu hægt og virðulega en uppi við Rjúkandaborgir var svitinn sprottinn fram. Himinn var heiður og sólin yljaði en norðanáttin hélt hitastiginu í tíu gráðum. Við Guðrúnarvörðu nokkrum skrefum sunnan við Rjúkandaborgirnar settust hjónin niður og könnuðu ástandið á aðalbláberjalynginu. Það var eins og þau héldu. Sólarleysið fram á mitt sumar hafði hamlað þroska berjanna því þau voru sorglega fáliðuð.

Hjónin settust niður á vatnsbakkanum á kunnuglegum stað. Þau voru ekki þarna í fyrsta sinn. Sunnanvert í vatninu synti álftapar með tvo unga og skammt frá þeim við norðurbakkann var einmana himbrimi að veiðum. Hvergi bólaði á maka og ungum. Hér hefur harmleikur átt sér stað.

Eftir stutta stund í veiði hringir eigandi vatnsins nýkominn úr girðingavinnu. Hann sagði hjónunum þær fregnir að tengdasonur hans hafi fyrir stuttu farið í vatnið og landað fimm punda urriða. Ja, hérna, hugsaði karlinn. Sjálfur hafði hann aldrei sett í stærri fisk en fjögur og hálft pund í vatninu.

Guðrún og LappiHjónin hófu veiðar á sínum uppáhaldsstað en þar var ekkert að hafa. Þá var gengið suður með vesturbakkanum suður fyrir Réttartangann. Þar settust hjónin niður tóku upp kakóbrúsann og réðu ráðum sínum. Úr varð að karlinn veiddi vesturbakkann sunnan við tangann en konan veiddi suðurbakka Réttartangans. Hundurinn hélt sig hjá konunni og var mestmegnis til leiðinda. Hann er lélegur veiðfélagi. Þau settu í einn silung en misstu hann. Karlinn náði einum tæplega tveggja punda urriða á vesturbakkanum. Síðan var vesturbakkinn veiddur alla leið til baka og árangur enginn.

Það var orðið nokkuð áliðið og hjónin ætluðu að ljúka ferðinni á bakkanum þar sem hún hófst. Eftir að hafa reynt með flugunni um hríð sótti karlinn gömlu Hercon kaststöngina og þeytti spúni langt út í vatn. Í aðdrættinum fann hann að þrifið var í spúninn og svo aftur þegar aðdrætti var við það að ljúka. Þá lyfti karlinn stönginn í von um að festa í fiskinum. Við það lyftist spúnninn upp á yfirborð vatnsins og sér karlinn að stór appelsínugulur urriði hendist upp úr vatninu og með sporðaköstum fleytir hann kerlingar á yfirborðinu á eftir spúninum þar til þyngdaraflið dregur hann niður í vatnið aftur. Spúninum náði hann ekki því hann var alveg kominn í stangarendann. Þvílík sjón, þvílík grimmd, hugsaði karlinn.

Keli með fiskinnÁfram var kastað en ekkert gerðist. Þá var skipt yfir í flugu því svona fisk hefði verið frábært að veiða með þeim hætti. Áfram var allt með kyrrum kjörum. Nú var orðið áliðið og tími kominn til að haska sér heim í svefninn. Karlinn ákvað að prófa að bjóða að lokum upp á sórt Rapala síli og þá er þrifið stöngina. Aflið var slíkt að Hercon stórfiskastöngin kengbognaði og línan rauk út. Karlinn taldi að þetta hlyti að vera 8 – 10 punda fiskur. Fór síðan að hafa áhyggjur af því að blóðhnúturinn héldi ekki eða að taumurinn slitnaði. Eftir að karl og fiskur höfðu togast á um stund fór fiskurinn að gefa eftir. Hægt og rólega færðist hann nær karlinum þarf til hann var vel sýnilegur. Þetta var urriði og ekki var hann eins stór og átökin bentu til. Sílið hafði krækst síðuna á honum. Þegar á land var komið reyndist þetta vera fallegur hængur sem vó nákvæmlega 2,71 kg eða tæp 5 og hálft pund.