Þingvallavatn 17. júní 2018

Bob Dylan og veitt með hægsökkvandi línu


Bob Dylan ómaði í hljómtækjunum þar sem ég ók yfir Mosfellsheiðina í leið í fyrstu veiðiferð í Þingvallavatn þetta sumarið. Eftir stanslausar rigningar allan maí og það sem af er júní var, ótrúlegt en satt, þurrt. Það var þungskýjað en sólin náði samt einstaka sinnum að brjótast í gegnum skýjabólarana. Vindur var hægur af norðaustan og öðru hvoru datt í logn. Hiti um það bil 7 gráður og hækkaði smátt og smátt upp í 13 gráður um hádegisbil.

Um sjöleitið stóð ég klár á bakkanum á milli Hallvíkur og Ólafsdrátts. Dylan er þagnaður og söngur fuglanna er tekinn við. Sá söngur er mun fallegri en söngur Dylans. Dylan hefur samt vinninginn í texta- og lagasmíðunum. Ég byrjaði á því að setjast niður, fá mér tesopa og gef mér tíma til að hlusta á tónleikana. Hafði smávegis áhyggjur af að nýviðgerðar vöðlurnar myndu leka. Þær reyndust sem betur fer vera í lagi. Ég hef heyrt menn ýmist tala um að þeir veiði Þingvallavatn með flotlínu og langan taum eða með hægsökkvandi línu. Ég hef verið í fyrri hópnum. Ef til vill vegna þess að ég hef alltaf verið ósáttur við glæru hægsökkvandi línuna mína. Þetta vorið lét ég loksins verða af því að skipta henni út. Fékk mér Airflo línu í Vesturröst með tólf metra langan sökkenda. Í þessari ferð ákvað ég að láta reyna á þessa aðferð. Um hálftíuleitið var mér farið að lengjast þófið og ákvað að færa mig yfir í Vatnskotið.

Thingvellir 18 06 2018 3

Á Vatnskotssvæðinu var fjöldi veiðimanna. Ég rölti út á Túntangann en sá að það voru þrír veiðimenn að kasta á bleiðurnar í kringum Murtusker. Þar hafði ég einmitt hugsað mér að veiða. Ég kom mér fyrir vestan megin við þá. Ég sá að veiðimennirnir voru í fiski en mér var ekkert að gerast. Ákvað þá að færa mig.Ég ók niður að Öfugsnáða. Þar voru heldur færri veiðimenn en nokkrir samt. Gekk austur eftir bakkanum frá bílastæðinu og finn mér stað, sennilega út af Hlóðavík eða jafnvel aðeins austar. Þarna var ég búinn að kasta þrisvar – fjórum sinnum þegar fiskur hleypur á Svartan kuðung. Á land kemur ágætis kuðungableikja rúmlega tvö og hálft pund. Að veiða á hægsökkvandi línu með styttri taum virkar sem sagt líka í Þingvallavatni. Gallin við þess aðferð er meira flugutap en ég er þá öruggur um að vera að veiða nógu djúpt.