Heiðarvatnið okkar 16. ágúst 2018

Forvitin tófa og fimm urriðar


Að morgni laugardagsins sat ég á pallinum við Brautarlækjarhúsið og æfði mig að spila lagið Moondance eftir Van Morrison. Það var glampandi sól og logn. Mér varð hugsað til eftirmiðdagsins sem við Guðrún ætluðum að nýta til veiða í heiðarvatninu okkar. Það skyldi þó aldrei vera að við fengjum að veiða vatnið í logni. Í öllum okkar ferðum í vatnið höfum við aðeins einu sinni veitt það í logni og þá aðeins í skamma stund á meðan vindáttin sneri sér.

Með ærinni fyrirhöfn komum við okkur á veiðislóð. Ekki var nú logn við vatnið eins og við höfðum vonað. Smávegis gola blés að sunnan og lofthitinn var 18 gráður. Guðrún byrjaði að veiða Veiðvíkina þar sem hún vitjaði neta með fjölskyldu sinni í gamla daga. Ég gekk austurbakkann til suðurs þar til komið var að þeim stað við vatnið þar sem áin rennur úr því. Þar óð ég langan veg út í vatnið og kastaði grænleitri straumflug með kúluhaus. Ég verð strax var við að eitthvað sýnir flugunni áhuga. Það verður til þess að ég dvel við dágóða stund áður en ég byrja að fikra mig til norðurs í átt að Grunnuvík.
 
Þau voru ekki mörg skrefin sem ég hafði tekið til norðurs þegar fyrsti urriðin grípur fluguna. Sprækur var hann þótt ekki væri hann stór. Skömmu síðar sé ég Guðrúnu landa einum í Veiðivíkinni. Áfram veiði ég til norðurs og á um hundrað metra kafla landa ég þremur urriðum til viðbótar. Tveimur á sömu fluguna og sá fyrsti tók og einn greip spúninn. Þegar ég kem í Veiðivíkina hefur vindáttin snúist um 180 gráður og nú blés að norðan. Í um það bil klukkustund fengum við að veiða vatnið í logni. Um nóttina féll hitinn hratt niður í eina gráðu.

Heidarvatnid 1Einn af fimm urriðum sem náðust á land. Þessi var stærstur.
 
Um hálf ellefuleitið gengum við til vesturs að þeim stað sem hefur gefið okkur flesta fiskana og þá stærstu. Okkur þótti ómögulegt annað en að taka nokkur köst þar áður en svarta myrkur skylli á. Ég gekk yfir í Lómavíkina á meðan Guðrún veiddi uppáhalds staðinn. Lómavík? Ég velti fyrir mér hvers vegna víkin fékk heitið Lómavík. Aldrei hef ég heyrt eða séð annað en að þetta vatn sé ríki himbrimans. Það getur svo sem vel verið að lómur hafi einhvern tíman gert sig heimakominn á vatninu því hann verpir um allt land. Svo er auðvitað hitt að nafngefandi hafi ekki þekkt himbrima frá lómi, nú eða honum hafi bara þótt Lómavík fallegra heiti en Himbrimavík. Enginn var fuglinn á Lómavík en í Grunnuvík svamlaði himbrimapar með einn unga og lengst úti á vatninu synti álftapar um með tvo unga.
 
Okkur til undrunar þá urðum við ekki vör í þetta skiptið á uppáhalds staðnum okkar. Það var kominn nýr dagur þegar við renndum í hlað í bústaðnum. Sátt með þessa fimm urriða þótt þeir væru af smærri gerðinni.