Tangavatn 16. júní 2019

Hvað heita fuglarnir og blómin?

Maður, kona og hundur tóku daginn snemma og báru fúavörn á pallinn við sumarkofann. Sól skein í heiði og dagurinn var heitur, sennilega einn af heitari dögum sumarsins. Hitamælirinn sagði 21 gráða í skugga. Það er hending ef hitinn stígur hærra á íslensku sumri. Fúavörnin tók sig hratt á pallinum þannig að ákveðið var að freista þess að bera á allan pallinn og fara að veiða í Tangavatni á meðan fúavörnin þornaði nóg til að hægt væri að tipla yfir pallinn og inn í kofann. Það er nefnilega aðeins ein leið inn íkofann og sú leið er af pallinum.
Tangavatn 19 juni 2019 2
Maður, kona og hundur óku því upp á Holtavörðuheiði á fjallabíl eldri dótturinnar og gengu síðan í austurátt þar til komið var að Tangavatni. Þar var veitt í sjö klukkutíma án þess að fólkið yrði nokkurs vart. Ekki sakaði það því maður, kona og hundur nutu þess mjög að vera þarna á heiðinni í félagsskap fuglanna. Fjórar álftir syntu um vatnið og héldu sig sem fjærst fólkinu. Himbriminn var einnig á sínum stað og köll hans ómuðu um vatnið. Hann er mun varari um sig á þessu vatni en himbriminn sem býr á Þingvallavatni enda ekki eins vanur mannaferðum. Það undraði fólkið að sjá stálpaðan himbrimaunga synda um á vatninu þegar það komu að því. Það fannst þeim ekki passa því á þessum tíma ættu ungarnir enn að vera bundnir við hreiðrið. Síðar sáu þau ungann fljúga af vatninu og framhjá. Nógu nálægt til að þau áttuðu sig á að þarna var hávella á ferð. Það fór ekki á milli mála þegar angurvært aúa gól hennar ómaði yfir vatnið. Bæði sendlingur og snjótittlingur voru í ætisleit við bakka vatnsins. Ekki sést snjótitilingur oft en þarna var karlfuglinn í hvíta og svarta sumarbúningnum sínum. Á kannski að kalla hann sólskríkju núna? Sennilega. Síðan voru mófuglarnir auðvitað að sinna sínu aðeins fjær bakkanum.

Tangavatn 19 juni 2019 1

Heiðin er ekki enn orðin iðjagræn en heiðarblómin blómstruðu um alla heiði. Maður og kona dunduðu sér við að reyna að muna nöfnin á jurtunum. Karlinn mundi ekki neitt en konan var heldur fróðari enda lærði hún nöfn blómanna af föður sínum heitnum. Hann þekkti náttúruna enda var hún hans lifibrauð. Heiðarblóm eins og hrafnaklukka, lambargras, kattarauga, músareyra og geldingarhnappur blómstruðu þarna um allt og fjöldi annarra jurta sem þau gátu ekki nafngreint. Eitt fagurblátt blóm vakti athygli og reyndist vera maríuvendlingur. Hundur kærði sig kollóttan um heiti fugla og blóma en var óþreytandi að fylgjast með aðförum karls og konu er þau munduðu veiðarfærin af miklum móð.

Maður, kona og hundur svifu síðan yfir pallinn, inni í kofann og hvíldu sig alsæl þar þótt fisklaus væru fram á næsta dag.


Myndbandið er frá árinu 2019 en ekki 2018 eins og stendur í titlinum. Nenni ekki að breyta því.