Þingvallavatn 30. maí 2019

Ég var ekki í stuði og asskoti var vatnið kalt

Mér þótti ómögulegt að hafa ekki bleytt í færi allan maímánuð og nú var hann að renna sitt skeið. Veðrið hefur alveg gefið tilefni til útiveru svo ég ákvað að bæta úr þessu, klifraði upp á geymsluloftið og sótti veiðigræurnar. Skaust síðan í Þingvallavatn. Ákvað að rölta út á Leirutá. Á bílastæðinu hitti ég einn veiðimann sem var að koma af tánni. Hann hafði náð einni vænni kuðungableikju og sagði að það væru Danir við veiðar á tánni. Hafði á orði að það væri ekki vandamál því þeir vissu ekkert hvað þeir væru að gera.

Ég rölti þarna út eftir og hitti þar einn danskan og annan þýskan. Þeir voru búnir að berja vatnið allan morguninn og daginn og höfðu ekki orðið varir. Þeir köstuðu samt nokkrum sinnum með mér og voru greinilega vanir veiðimenn. Í öllu falli köstuðu þeir flugunni betur en ég. Þeir voru greinilega orðnir þreittir á veiðileysinu og létu sig fljótlega hverfa á braut. Ég barði vatnið í þrjár klukkustundir og varð ekki heldur var. Var í einhverju óstuði og þótti vatnið óhemju kalt þannig að ég hélt snemma heim, fisklaus.

thingvallavatn 30 juni 2019 5Þessi mynd af blómstrandi hofsóley (lækjarsóley) var eina veiði dagsins.