Gíslavatn 6. júlí 2019

Hver var þessi Gísli?

Langt uppi í Hellistungum er vatn eitt lítið sem Gíslavatn heitir. Vatn þetta hefur að sögn tengdaföður míns heitins að geyma ágætis bleikjur. Hann sannreyndi það með veiðum þarna á heiðinni en þær veiðisögur eru orðnar 60 – 70 ára gamlar. Í þann tíð var sótt í allar matarholur. Í dag held ég að ekki nokkur maður fari í þetta vatn því það er ekki beint í alfararleið. Veiðrétturinn er í höndum eigenda Gilsbakka en veiðiréttur margra vatna á Tvídægru tilheyrir þeim bæ. Gilsbakkaklerkar hér á öldum áður hafa verið duglegir að sölsa undir sig veiðrétt hér og þar. Annars er hæpið að maður muni nokkru sinni rekast á veiðrétthafa við Gíslavatn að verja veiðiréttinn.

Gislavatn2Gíslavatn séð frá vörðunni ofan við vatnið. Vatnið er 0,47 ferkílómetra stórt en mér virðist það nú vera minna en það. Gísli þessi sem vatnið er kennt við var sonur Þorbjarnar blesa landnámsmanns. Þorbjörn þessi átti víst bústað að Blesastöðum en sagan segir að það móti enn fyrir bæjarstæðinu sunnan við Hellisá töluvert ofan við bæinn Krók. Gísli sonur hans bjó víst þarna uppfrá einnig en þó ekki á Blesastöðum. Ég á dálítið bágt með að trúa því að þarna uppfrá hafi einhver getað búið nema þá ef veðurfar hafi verið með allt öðrum hætti fyrir árið þúsund en það er í dag. Annars ætlaði ég ekki að ræða þessa kappa í þessari grein. Geri það þegar ég leita Blesastaði uppi.

Ég ákvað að kanna málið með veiðina og fékk mér göngutúr upp að vatninu með vöðlur og stöng í bakpokanum. Klæddi mig í léttan göngufatnað því hitinn var einar 20 gráður og glampandi sól og arkaði síðan af stað. Ég hef reyndar áður gengið upp að vatninu og reynt að veiða í því. Þá var ég ungur og hraustur. Nú er ég miðaldra og hraustur þannig að lítið hefur breyst. Ég lagði upp til móts við brúna yfir Búrfellsá. Að þessu sinni reyndist lítið mál að vaða Norðurána því þurrkarnir í sumar hafa nánast gert hana að læk. Hugmyndin var að ég myndi hringja í eiginkonuna þegar ég kæmi til baka og hún myndi sækja mig á sama stað. Þar reyndist ekkert símasamband við Búrfellsá þannig að við ákváðum að treysta á að samband fengist þegar upp væri komið. Til vara ákváðum við að hún myndi sækja mig á miðnætti ef við næðum ekki að hringja okkur saman.

Gangan upp hálsinn var ekkert sérstaklega strembin en kom þó út á manni svitanum. Eðlilega reyndar því það nægir að hugsa um það að hreyfa sig í þessum hita til að maður svitni. Þegar upp var komið hófst gangan inn á heiðina og leitin hófst að vatninu. Samkvæmt kortum átti vatnið að vera svipað stórt og vatn sem við þekkjum þarna í grenndinni en áður en að því kæmi átti að ganga fram hjá nokkrum tjörnum. Á leiðinni gerði ég mér far um að ganga upp á hæstu punkta til að átta mig á staðháttum. Þegar ég lokst taldi mig hafa fundið Gíslavatn var ég samt efins um að rétta vatnið væri fundið því það var mun minna en kortið sem við vorum með sýndi. Ég gekk því áfram til suðurs þar til land tók að halla undan fæti niður að Hellisá. Gekk síðan til baka að vörðu einni sem stóð á hæð ofan við vatnið. Hringdi í frúna því þarna var símasamband.

Gislavatn3Séð frá Gíslavatni yfir í Snjófjöllin.Þegar þarna var komið hafði ég gengið í þrjár klukkustundir án þess að stoppa mikið. Gaf mér samt tíma til þess að taka myndir. Vatnið niður undan vörðunn var örugglega Gíslavatn þannig að Það var ekkert annað að gera en að ganga niður á bakkann og kasta flugunni. Vindur var norðanstæður en ekki svo hvass að erfitt væri að koma flugunni út. Vatnið sjálft var gruggugt en það þarf lítinn vind til að grugga svona vatn því það er afskaplega grunnt. Dæmigert heiðarvatn með leirbotni. Ég velti nú fyrir mér hvort það gæti yfirhöfuð verið fiskur í þessu vatni því það er það grunnt að það hlýtur að botnfrjósa að mestu á köldum vetum. Sennilega er samt eittvað dýpra úti í miðju vatni. Á vatninu svamlaði Álftarpar með þrjá unga og einhver andartegund, með einn unga settist á mitt vatnið um stund, ein kría var að veiðum yfir vatninu og annað álftarpar sveif rétt yfir hausamótum mínum þar sem ég stóð úti í vatni og kastaði.

Flugunni kastaði ég í um það bil tvær og hálfa klukkustund og varð ég einskis var. Um tíuleitið gekk ég til baka og tók sú gangan ekki nema klukkutíma og korter enda var gengið mun ákveðnar og alldrei var gangan upp í móti. Þegar ég fer að sjá niður á þjóðveg er sólinn að setjast. Eitthvað hafði ég tekið annað mið en á leiðinni upp því ég kom mun vestar niður að Norðurá en þar sem ég lagði upp. Ekki að það hafi skipt neinu máli því áin var jafn auðvaðin þar og ofar.

Gislavatn1Séð frá hálsinum ofan við Fornahvamm yfir að Baulunni.Niðurstöður athugunar á veiði í Gíslavatni eru þær að það sé ekki erfiðisins virði að reyna veiðar í því. Það er samt vel þess virði að ganga inn að vatninu svona til að njóta útiveru og útsýnis. Ég mæli þá með að gengið sé áfram yfir að Hellisá og síðan með henni niður að Norðurá þar sem Hellisá fellur í hana rétt neðan við Klapparhyl. Það gerði ég í fyrra skiptið sem ég gekk upp að Gíslavatni. Sú ganga er mun lengri þó.