Ljósavatn 15. júlí 2019

...og svo kom flóð
Við hjónin leigðum okkur bústað í Fnjóskadal þriðju vikuna í júlí. Þar sem við erum stoltir eigendur Veiðikortsins þykir okkur skylt að nýta þá fjárfestingu. Þess vegna köstum við beitu eða flugu í öll þau vötn sem kortið veitir aðgang að þegar við erum á nýjum slóðum. Frá bústaðnum sem við dvöldum í er ekki nema tíu mínútna akstur að Ljósavatni. Dagurinn var búinn að vera þannig að maður trúði því varla að maður væri staddur í landi því sem kennt er við ís. Borðuðum til dæmis hádegis- og kvöldverð úti á verönd í 18 – 20 gráðu hita.
Ljosavatn 2019 1 of 2Við brúna yfir Fnjóská. Brúin var byggð árið 1908 af dönskum mönnum. Henni var ætlað að bera hesta og hestvagna en var notuð fyrir létta bílaumferð til ársins 1968.

Um kvöldið skutumst við í Ljósavatn. Létum vita af okkur á bænum Krossi og hófum síðan veiðar. Ljósavatn er mikið vatn á íslenskan mælikvarða. Stærð þess er 3,2 km2, meðaldýpt 10 metrar og mesta dýpt 35 metrar. Vatnið þekkjum við ekki neitt svo við reyndum að leggja mat á hvar líklegast væri að fiskur lægi og síðan er þetta bara spurning um að leita. Við reyndum fyrir okkur á þremur stöðum við vatnið. Allan tíman sótti mýflugan hart að okkur enda var stafalogn. Beittum Mygga og netum til að verjast ágangi hennar og sluppum nokkuð vel við bit. Ég fékk tvö og eiginkonan ekkert. Það er vel sloppið miðað við hvað mývargurinn var fjölmennur.
Ljosavatn 2019 2 of 2Hirðanlegur afli kvöldsins.

Það er greinilega mikill fiskur í Ljósavatni. Hann var að vaka þarna um allt en var svo sem ekki að taka grimmt. Ég náði að landa einum og öðru hvoru var nartað í fluguna. Þetta voru greinilega smábleikjur. Okkur skilst að það séu stærri bleikjur innan um og að í vatninu séu jafnvel stórir urriðar en algeng stærð þeirra sé 1 – 3 pund. Við eigum eftir að sannreyna það því við urðum ekki vör við neitt nema smáfisk. Eiginkonan náði einni punds bleikju og þar með er aflinn upptalinn.

Á dagskránni voru fleiri veiðiferðir. Vestmannsvatn beið og við vorum búin að fá leyfi til að veiða í Másvatni. Því miður þá átti nú ekki að verða af því vegna þess að á fimmtudagskvöldinu einmitt þegar við vorum að gera okkur klár til veiða í Másvatni hringdi dóttir okkar og það var neyðarkall. Kaldavatnsinntakið hafði gefið sig fyrir utan eldhúsið í kjallaranum og vatnið fossaði inn í íbúð. Það var ekkert annað í boði fyrir okkur en að bakka saman og keyra heim um nóttina. Veiði í Másvatni og Vestmannsvatni bíður betri tíma.