Hólmavatn 2. júlí 2020

Er vindorkugarður góð hugmynd?

Ég hafði á orði við eiginkonuna að gaman væri nú að prófa veiði í vatninu við betri aðstæður. Þetta var sumarið 2015 þegar við fórum okkar fyrstu veiðiferð í Hólmavatn á Hólmsheiði í Dölum. Það var hvínandi norðan rok. Síðan fórum við aftur sumarið 2017 og Teikning af fyrirhugum vindmyllugarði á Hólmsheiði.Teikning af fyrirhugum vindmyllugarði á Hólmsheiði.gerðum þá góða veiði en voru aðstæður betri? Nei, nei, en nú var strekkingsvindur sem blés frá suðvestri.

Í þriðja sinn renndum við hjónin saman í Hólmavatn og hvað haldið þið? Það var norðaustan rok. Ég er ekki hissa á því að einhverjum hafi hugkvæmst að rigga upp einu stykki vindorkugarði í þessu fádæma rokrassgati. Hugmyndin er greinilega komin lengra en að vera bara hugmynd því hér má finna matsskýrslu um verkefnið. Vindmyllurnar yrðu 27 og ætli hver þeirra sé ekki um 150 metrar á hæð.

Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki hrifinn. Illa líst mér á að veiða með hringsnúandi mylluspaða á stærð við Hallgrímskirkjuturn fyrir ofan hausamótunum á mér. Ef mér líst illa á að vera að veiðum með þennan óskapnað yfir hausnum á mér hvað segja þá fuglarnir sem þarna eiga heimkynni sín. Ég get ekki ímyndað mér að þeir verði vært á svæðinu ef þessar hugmyndir verða að veruleika.

Veiðin var ekkert til að hrópa húrra yfir. Við slitum sex urriða upp úr vatninu. Allir voru þeir smáir. Tveimur gátum við sleppt þannig að fjórir munu enda á matardiskum okkar. Tveir þeirra voru í ágætis stærð. Við hjónun ætlum ekki að gefa Hólmavatn upp á bátinn. Okkur skilst að best sé að veiða í vatninu í dumbungi. Þennan dag var vissulega leiðinda rok en það var bjart þannig að aðstæður gáfu sennilega ekki tilefni til góðrar veiði. Við reynum að sitja fyrir stilltu veðri og dumbungi. Þegar þær aðstæður skapast skjótumst við upp á heiði og mundum flugustengurnar.

Guðrún við bílinn tilbúin til heimferðar. Ef rýnt er í myndina má sjá gríðarhátt vindmastur bera við fjallið. Vindmastrið er liður í undirbúningi fyrir vindmyllugarðinn.

Fyrir framan Hólmavatn. í baksýn má sjá Snjófjöllin sem gnæfa yfir Holtavörðuheiðinni.

Maður getur alveg verið kátur þótt það sé rok og fiskarnir séu litlir og fáir.