Vötnin 4. - 6. júlí 2020

Silungurinn tekur fluguna eftir allt saman

Í þriðja sinn fór smíðaklúbburinn í Vötnin. Vissulega bera þau annað heiti en Vötnin en af mér var tekið það loforð að upplýsa hvorki um heiti þeirra né staðsetningu. Við það loforð stend ég að sjálfsögðu og vitna ég bara til þeirra með heitinu Vötnin. Ég get þó upplýst að um mjög langan veg er að fara fyrir borgarbúann. Vissulega er freistandi að fjalla dálítið í pistli þessum um fjallanöfnin og náttúruna en vegna þagnareiðsins verð ég að láta það einnig vera. Sem er synd því umgjörð vatnanna er stórbrotin. Einnig hefði verið áhugavert að fjalla um tilurð vatnanna en þagnareiðurinn hindrar þá frásögn einnig.

Votnin 4 6 juli 2020 1Við höfðum ekki riðið feitum hesti frá fluguveiðinni í vötnunum þrátt fyrir að allt væri reynt.

Við veiddum laugardagseftirmiðdaginn, allan sunnudaginn og fyrir hádegi á mánudeginum. Allan tíman lék veðrið við okkur. Sól skein í heiði og vindur var hagstæður til fluguveiða. Um tíma datt jafnvel í logn. Eitt af því sem gjarnan er gert í veiðitúrum er að rifja upp fyrri túra og þrasa um hver veiddi mest og best. Slíkar umræður er fljótafgreiddar í smíðaklúbbnum. Einn úr hópnum heldur nákvæma dagbók um veiði sína og hefur gert í fjölda ára, ef ekki áratugi. Þegar rifja skal upp fyrri veiði dregur hann fram excelskjalið og málið er dautt. Fyrir síðustu vaktina var orðið ljóst að möguleiki var á að slá fyrra veiðimet. Samkvæmt excelskjalinu góða var fyrra veiðimet sett í Steinsmýrarvötnum árið 2009. Þá landaði hópurinn samtals 106 silungum. Aflabrögð voru frekar góð á laugardag og sunnudag og ljóst var að við áttum möguleika á að slá metið. Til þess þurfti hver meðlimur klúbbsins að landa sex silungum á síðustu vaktinni.

Þessir urriðar fengust út af tanganum vinstra megin efst á myndinni.Þessir urriðar fengust út af tanganum vinstra megin efst á myndinni.

Ég sagði að vindur hafi verið hagstæður til fluguveiða. Vorum við þá eitthvað að munda flugustangirnar því eftir fyrri veiðitúra fannst okkur það lítt vænlegt til árangurs? Jú, að sjálfsögðu var reynt þótt trúin væri lítil. Á laugardeginum náði ég að landa tveimur urriðum á svartan nobbler undir lok veiðitímans. Mér hafði ekki hugkvæmst að reyna fyrr vegna vantrúar á árangur. Þegar ég hitti á félaga minn sagði hann mér að hann væri búinn að landa nokkrum á fluguna og var hinn kátasti. Það var sem sagt hægt að fá silunginn til að taka fluguna.

Á mánudagsmorgninum dreifðum við okkur hingað og þangað um veiðisvæðið. Ég fór í vötn þrjú og fjögur sem eru frekar lítil. Fékk einn ágætan urriða á beitu í vatni þrjú. Eftir að hafa kastað flugunni um allt vatn gafst ég upp og fór í vatn fjögur. Byrjaði á að græja letingjann og hófst síðan handa við að kasta flugunni. Þarna held ég að nauðsynlegt sé að láta fluguna veiða við botn. Vötnin virtust sum hver vera það djúp að sökklína væri málið. Ég setti þar af leiðandi hjólið með hægsökkvandi línu á stöngina og dró hægt inn. Byrjaði á að reyna frekar ýktar flugur sem ég keypti í Vesturröst sérstaklega fyrir ferðina. Gafst fljótt upp á þeim. Það var hundleiðinlegt að kasta þeim. Setti rauðan nobbler undir og viti menn. Fljótlega tekur tæplega fjögurra punda bleikja. Stuttu síðar tekur önnur tveggja punda og síðan tveir vænir urriðar. Á meðan á þessu stóð snerti fiskurinn ekki beituna. Þetta kennir manni að maður skyldi aldrei sleppa því að taka flugustöngina með á veiðislóð.

Þessa síðustu vakt landaði ég sex fiskum sem allir voru nokkuð vænir og á endanum landaði ég 22 silungum. Þrátt fyrir að ég hafi landað fæstum fiskum af félögum smíðaklúbbsins þá græt ég það ekki. Er bara mjög sáttur við túrinn. Síðasta daginn náði ég að landa þeim sex silungum sem þurfti til að slá veiðimet klúbbsins. Það var léttir því ekki var þá hægt að kenna mér um að veiðimetið féll ekki. Félagar mínir stóðu sig mun betur og veiðimetið var slegið og það rækilega. Samtals endaði túrinn í 126 silungum. Flestir þeirra voru urriðar en í aflanum voru þónokkrar bleikjur og sumar þeirra nokkuð vænar.

Með bleikju í hægri hönd og urriða í þeirri vinstri.Með bleikju í hægri hönd og urriða í þeirri vinstri.

Vötnin 2017

Vötnin 2018