Hólsbúðarvogur og Tröllendi 13. og 15. júlí 2020

Betri er smár fiskur en tómur diskur

Vorum stödd á eyju og ekkert veiðivatn og enga veiðiá er hér að finna. Aðeins votlendi og óhemju mikið fuglalíf. Tvær veiðistengur voru nú samt með í för því hafið umhverfis eyjuna ku vera einstaklega gjöfugt. Eyjan er Flatey, sú sem er stödd í miðjum Breiðafirðinum. Okkur hjónunum fannst ekkert vit í öðru en að láta á það reyna hvort við gætum veitt hvítan fisk út af ströndinni. Mánudaginn 13. júlí röltum við hjónin með veiðibúnaðinn niður í fjöruna sem er rétt neðan við Ráðagarð, bústaðinn sem við dvöldum í. Hálftími var í háflóð þann daginn. Beittum makríl, settum sökku undir og þeyttum agninu eins langt út í Hólsbúðarvog í átt að Snæfellsnesfjallgarðinum og við gátum. Settumst síðan niður og sleiktum sólskinið.

Flatey a Breidafirdi july 2020 2

Eftir um það bil hálftíma klingdi í viðvörunarbjöllunni sem við hengdum á stöngina og inn drógum við tveggja punda þyrskling. Þann klukkutíma sem við sátum þarna í fjörunni til viðbótar var í þrígang rifið í agnið en enginn fiskur festi sig. Heim fórum við með aflann og á þriðjudeginum var þyrsklingurinn etinn og reyndist hann matur hinn besti.

Eftir kvöldfréttir á þriðjudeginum röltum við niður á bryggju og út á kletta í fjörunni sem okkur þótti standa nægjanlega fram í sjó að þangið væri ekki að angra okkur við veiðarnar. Þessi endi eyjunnar kallast Tröllendi. Þarna út af grjótinu veiddum við í tæpar tvær klukkustundir. Þegar við komum til baka upp í hús um eittleitið vorum við búin að landa fjórum fiskum. Þrír þeirra voru þysklingar en sá fjórði var ufsagrey. Tveimur náðum við að sleppa aftur í sjóinn. Þysklingarnir voru um tvö pund hver.

Ég skaust niður í Hólsbúðarós á fimmtudeginum í ruddaveðri. Í það skiptið gerðist ekkert annað en að spúnninn freistaði ritunnar. Sem betur fer slapp ég við að losa ritu af spúninum. Ég entist nú ekki lengi því bæði var ég illa búinn fyrir eitthvað veiðislark og fjörugrjótin voru óþægilega hál í rigningunni. Ég vildi síður flengjast á hausinn í fjörugrjótið og hélt því heim í Ráðagarð.

Guðrún á bekknum við Tröllenda. Flóabáturinn Baldur sést í bakgrunni og stefnir á Barðaströndina.

Að veiðum við Tröllenda. Þarna var greinilega fullt af fiski því hann tók spúninn grimmt.

Sýn til Snæfellsjökuls frá bústaðnum sem við dvöldum í. Næst landi er Hólsbúðarvogur.