Heiðarvatnið 8. ágúst 2020


Ný veiðislóð staðfest

Enn eitt árið taka framkvæmdir í heimahögum hugann einmitt þegar sumarveiðin er í algleymi. Við hjónin erum í startholunum með að gera gagngerar endurbætur á eldhúsi, stofu og forstofu og þurfum nú að herða okkur í að ryðja öllu úr þessum rýmum. Það hvarflaði samt ekki að okkur að sleppa árlegri veiðiferð í heiðarvatnið okkar. Frekar ætluðum við að vinna að undirbúningi framkvæmda lengur frameftir kvöldum í vikunni. Veiðibúnaðurinn var klár í farangursboxinu þannig að ekkert þurfti að gera annað en að rigga nesti til helgarinnar í kæliboxið áður en haldið var út á land.

Heidarvatnid 2Þegar ég kom til baka eftir að hafa rölt meðfram suðurbakkanum var eiginkonan búin að landa þessum fjórum urriðum.

Eftir nokkra kaffibolla og spjall á laugardagsmorgninum við eigendur vatnsins um lausafjárgöngu búfjár, veiðimennsku, skógrækt og sagnir af fyrri ábúendum jarðarinnar allt frá landnámi héldum við hjónin á brattann. Þegar heiðarvatnið var fundið settum við stefnuna á klett einn sem stendur við austurbakka vatnsins. Í fyrra áttum við skemmtilega kvöldstund þar í fanta roki og töldum okkur hafa fundið góða veiðislóð. Nú ætluðum við að staðfesta þann fund. Það var búin að vera suðaustanátt á föstudeginum en núna hafði vindur snúið sér og blés frá suðaustri. Vindur var alls ekki eins sterkur og fyrir ári síðan og lítið mál að kasta flugu.

Ég skildi eiginkonuna eftir við klettinn á austurbakkanum og gekk áfram eftir bakkanum og síðan til vesturs eftir suðurbakkanum. Ég var ekki búinn að ganga lengi þegar ég sé fisk spretta út í vatn þegar hann verður var við mig þramma eftir bakkanum. Ég greip næstu stöng og fleygi spón í hasti á eftir fiskinum. Dreg inn og rétt við bakkann er hann á. Þetta reyndist tveggja punda urriði. Þessi fiskur var frekar mjósleginn. Mér leist nú ekki vel á það og velti fyrir mér hvort fiskurinn í vatninu hefði ekki nægt æti. Áfram gekk ég til vesturs, fram hjá hólminum sem himbriminn verpir og að skerinu sem er á suðurbakkanum beint á móti Réttartanganum. Vatnsstaðan var ekki það há svo ég gat vaðið út í skerið og kastað af því í allar áttir. Tvisvar tók urriði en báða missti ég. Ég prófaði síðan að kasta spúni af skerinu og náði einum punds urriða.

Allan tíman stóð eiginkonan staðföst við klettinn. Þegar ég kem til baka, orðinn sársvangur, sé ég að hún hafði enga ástæðu til að færa sig. Við bakkann lágu fjórir fallegir 2. – 4. punda urriðar. Á meðan ég maulaði kærkomna hangikjötssamloku og drakk heitt kakó með sagði frúin mér söguna af urriðunum fjórum. Aftur og aftur sá hún fisk elta spúninn og öðru hvoru stukku stórir og fallegir fiskar fyrir framan hana. Þarna var greinilega töluvert af fiski og þeir voru ekkert langt frá landi. Ég kastaði að sjálfsögðu flugunni á bleyðuna og náði fljótlega að landa einum ágætum urriða. Þarna vorum við orðin ágætlega sátt svo við ákváðum að halda heim á leið. Veiðin hafði gengið það vel að við sáum fram á að geta átt notalega kvöldstund í íverustað okkar með spjalli um veiði og undarleg búfjárlög.

Heidarvatnid 1Síðasti urriðinn sem landað var áður en haldið var heim.

Á leiðinni til baka gat ég samt ekki látið hjá líða að láta reyna með nokkrum köstum á grjótbakkann á milli Lómavíkur og Breiðavíkur. Þar er oft fiskur. Kastaði þar um það bil tíu sinnum en án árangurs.