Vötnin 28. - 30. júní 2021

Veiðimetið slegið, næstum því.

Líkt og eltihrellir var veiðigyðjan farin að áreita mig um miðjan júní. Það var því kærkomið þegar félagi í smíðaklúbbnum hafði samband og spurði hvort ekki væri kominn tími til að skjótast saman í ónefndu vötnin. Ég hélt nú það enda var kjörið að hefja langþráð sumarleyfi með í veiði í þessum ágætu vötnum langt fjarri skarkala borgarlífsins. Fyrir okkur kríthvíta Íslendingana sem frá náttúrunnar hendi erum aðlagaðir að hráslaga og misvindum var veðurspáin ógnvekjandi, 20 gráður, logn og sól. Að þessu sinni voru þrír fjórðu hlutar veiðideildar smíðaklúbbsins með í för og einn sérlegur gestur. Fjórði meðlimu klúbbsins var upptekinn við annað þessa daga en fylgdist með á rafrænni hliðarlínunni. Gesturinn er bróðir aldursforseta félagsins og þess sem kynnti okkur fyrir vötnunum.

Vötnin sem um ræðir tilheyra vatnaklasa fjarri alfararleið og höfum við til hagræðingar númerað þau frá einum til fimm. Reyndar eru þau aðeins fleiri en það eru þessi fimm sem við höfum helst veitt í. Nú höfum við komið nokkrum sinnum á þetta svæði og vötnin eru farin að fá nöfn. Hvað þau heita í raun og veru höfum við enga hugmynd um, ef þau heita þá eitthvað.

Efst í vatnaklasanum er vatn númer eitt. Í samræðum okkar félaganna hefur vatnið fengið nafnið Arnarvatn því félagi Örn hefur í tvígang gert þar eftirminnilega veiði. Í þessu vatni sýnist okkur eingöngu vera staðbundinn silungur, bæði urriði og bleikja en í hinum vötnunum getur fiskurinn flakkað á milli. Við frændurnir hófum veiðar í Arnarvatni á fyrstu vaktinni. Þegar við erum að búa okkur til veiða í vatninu, eða það hélt ég snarar félagi minn bakpokanum á öxl og segist ætla að ganga í vatn númer fimm. Það vatn er neðst í vatnaklasanum og er töluverður spotti í það. Hann þvertók fyrir að taka bílinn og arkaði af stað. Sagði að þetta væri ekki nema korters rölt. Vissulega er hann göngugarpur mikill en hafi gangan tekið korter þá hefur hann verið í sjömílna skónum sínum. Ég setti saman stangirnar og sé þá að létta Shimano kaststöngin er brotin. Ég var búinn að steingleyma að ég hafði stigið á hana og brotið nákvæmlega á þessum stað tveimur árum fyrr og keypt nýja stöng. Sú stöng var heima í geymslu en sú brotna var með í för. Ég varð því að láta gömlu Hercon stöngina duga en Shimano stöngin er óneitanlega skemmtilegri í silunginn.

Minnugur þess að vötnin gáfu mér fisk á flugu í fyrra byrjaði ég á því að kasta flugu á bleiðurnar í norðvesturhluta vatnsins sem félagi Örn fann í fyrra. Reynslan hafði kennt mér að best væri að veiða með botninum þannig að ég setti hjólið með hægsökkvandi línunni og stuttan taum á flugustöngina. Á tauminn fór peacock með kúluhaus og í þriðja kasti greip tveggja punda urriði fluguna. Í fjórða kasti greip annar. Lítið gerðist síðan um stund þannig að ég kastaði beitu og ætlaði að láta liggja og síðan yrði flugunni kastað áfram. Það varð frekar friðlaust því stöðugt var fiskur í beitunni. Þegar upp var staðið hafði ég landað þremur eða fjórum urriðum á flugu en samtals dröslaði ég tólf urriðum upp í bíl þegar vaktinni lauk.

Votnin 2021 2Flugunni kastað í Vallavatn.

 Um níuleitið um kvöldið vitjuðu bræðurnir mín við Arnarvatn. Þeir höfðu varið deginum í vatni tvö og Vallavatni sem er vatn númer þrjú. Það var heldur lágt á þeim risið því þeir höfðu einungis landað fjórum fiskum til samans. Í fjarska sáum við að félagi minn og frændi er búinn að setja á sig sjö mílna skóna og kemur arkandi eftir kömbunum ofan við vötnin. Hann fer hratt yfir þrátt fyrir að hafa töluverða byrði að bera. Hann hafði fundið fisk í vatni fimm út af tanga á suðurbakka vatnsins og það nóg af honum. Tuttugu fiskum landaði hann við tangann.

Ég og frændi hófum vakt tvö í vatni tvö og Vallavatni. Ég lét beituna liggja í vatni tvö á meðan ég kastaði flugunni vítt og breitt um vatnið og einnig Krakkavatn og polla sem eru þarna hjá. Að þessu sinni gafst góður friður til flugukasta því það var greinilega lítill fiskur í vötnunum þannig að ég kom fisklaus af þessari vakt. Á meðan varði veiðifélagi minn tímanum í Vallavatni og hafði einhverja fiska upp úr krafsinu en ekki voru þeir margir. Á meðan veiddu bræðurnir vatn fimm og létu þeir ekki sjá sig fyrr en undir kvöld. Þegar þeir síðan loksins birtust voru þeir upplitsdjarfari en eftir fyrstu vaktina því þeir voru með yfir þrjátíu silunga í farteskinu.

Aflinn á leið í vinnslu.

Flökun og hreinsun.

Komið í neytendapakkningar.

 Votnin 20219Í veiðideild smíðaklúbbsins er aldagömul veiðimenning í hávegum höfð. Hún kallast Veiða og borða.

Á þriðju vaktinni fóru ég og frændi í Arnarvatn. Frændinn veiddi bleiðurnar sem ég hafði veitt daginn áður. Ég gekk út á tanga sem er í miðjum suðurhluta vatnsins. Þar hafði ég áður gert góða veiði. Að þessu sinni var heilmikið af fiski út af tanganum og þegar upp var staðið um kvöldið hafði ég landað þrettán urriðum og þar af nokkrum þeirra á flugu. Fluguveiðin byrjaði reyndar brösuglega. Rauður nobbler var hnýttur á tauminn og greinilegt var að silungurinn hafði áhuga. Loksins festi einn sig en þegar ég var við það að grípa háfinn þá hvarf hann á braut. Hnúturinn hafði raknað. Annar rauður nobbler var hnýttur á tauminn og ítrekað var þrifið í hann. Aldrei festi þó í fiski. Ég velti fyrir mér hvort silungurinn tæki svona grannt og ákvað að skipta yfir í flugu sem væri ekki með skott. Eitt fannst mér þó ekki styðja kenninguna en það voru tökurnar. Þær voru frekar ákveðnar. Þegar ég er kominn með fluguna í hendurnar kemur í ljós hvað olli þessu. Það var enginn krókur á flugunni. Hann hafði brotnað af. Ég skipti yfir í þingeying og landaði nokkrum urriðum á hann. Á meðan á þessu stóð veiddi frændinn vel á norðurbakkanum.

 Nú var dagur að kvöldi kominn og yfir kjúklingasúpunni sem frændinn kom með var staða mála tekin. Hópurinn var illa farinn eftir að hafa veitt þrjár vaktir í heiðríkju, tuttugu gráðum og logni. Ein morgunvakt var eftir og excelmaður smíðaklúbbsins upplýsti að möguleiki væri á að slá veiðimet smíðaklúbbsins. Á síðustu vaktinni þyrfti hver veiðimaður að landa fjórum silungum og þá væri metið slegið. Ég og frændinn fórum í vatn fimm sem ætti kannski að fá heitið Stóravatn því það er stærst vatnanna. Skammt norðvestan við það er vatn fjögur sem héðan í frá mun bera heitið Ónýta vatn. Ekki að það sé alveg ónýtt því þar höfum við fengið fisk en það er ekki eins skemmtilegt veiðivatn og hin vötnin. Áfram var hlýtt og bjart en nú var hávaðarok þannig að fluguköst beint á móti rokinu gengu vægast sagt brösuglega. Ég skipti yfir í 12 gramma spún sem auðvelt var að kasta í vindinum og á hann landaði ég fjórum silungum. Þar af var eina bleikjan sem ég náði í þessum veiðitúr. Ég náði sem sagt tilskyldum fjórum fiskum á land. Frændinn náði átta þannig að það leit vel út með að metið yrði slegið. Bræðurnir lönduðu fjórum fiskum saman þannig að metið var slegið, eða nei. Eitthvað brást nú reikningslistin því þrátt fyrir að hafa náð sextán fiskum í land þá endaði túrinn í 122 silungum. Við hefðum þurft að ná einum enn til að slá metið. Sjálfur landaði ég 29 silungum sem allir voru 1 – 2 pund.