Þingvallavatn 11. júlí 2021

Örtröð á veiðislóð

Arnarfjall í baksýn. Bleikjan tók beint út af steininum sem hún liggur á. Önnur tók norðan við næsta tanga.

Fyrir nákvæmlega viku síðan lagði ég bílnum sunnan við Arnarfellið. Þá var enginn bíll á stæðinu og ég bjó lengi vel einn að öllum veiðistöðunum. Þennan sunnudagsmorgunn brá öðru við. Það voru fjórir bílar á stæðinu, ég var á þeim fimmta og ég var rétt stiginn út úr bílnum þegar sjötti bíllin lagði fyrir aftan mig.

Eins og við var að búast voru allar veiðibleiðurnar uppteknar næst Arnarfellinu. Örtröðin varð til þess að ég fór að leita nýrra veiðistaða. Ég gekk því suður eftir austurbakkanum og örugglega lengra en ég mátti því þar sem ég stoppaði sá ég til bæjanna Miðfells og Mjóaness. Á leiðinni suður eftir bakkanum kom ég fljótlega á stað sem mér þótti líklegur en ákvað að veiða hann í bakaleiðinni. Ég stoppaði í víkinni sem ég og eiginkonan veiddum þann fjórða ágúst 2017. Ég er með brúnleita púpu undir, kasta henni og fljótlega er hún tekin. Takan var ekkert sérstaklega hraustleg þannig að ég hélt að ég væri með smábleikju eða murtu. Ég dundaði mér við að spóla inn lausu línuna og hafði frekar kæruleysisleg handtök við þetta. Skyndilega rýkur fiskurinn út og reyndist hann vera heldur stærri en takan sagði til um.

Síðan rölti ég bakkann til baka og kastaði þar sem mér þótti líklegt að fiskur gæti legið. Ég var ekki búin að ganga langt þegar önnur ágæt kuðungableikja tekur fluguna, Peacock. Áfram var haldið eftir bakkanum. Ég sá að tveir strákar voru búnir að planta sér á staðnum sem ég var búinn að sjá fyrir mér að væri líklegur og ætlaði að veiða í bakaleiðinni. Ég á staðinn bara inni. Rétt sunnan við strákana tók ég nokkur köst og það er tekið raustlega í. Sá fiskur slapp en að sjálfsögðu var kastað nokkrum sinnum í viðbót. Eftir nokkur köst var aftur þrifið hrauslega í. Fiskurinn sýndi sig strax með því að stökkva nokkrum sinnum. Greinilegt var að þetta var urriði en ekki bleikja. Að þessu sinni náði ég að landa honum.

 Thingvallavatn 11 juli 2021Alltaf undrar það mig að þurfa að tína upp bjórdósir eftir aðra veiðimenn. Sem betur fer ganga fæstir svona um en það er víst svartir sauðir innan um.

Ég náði síðan að landa einni bleikju til viðbótar í krubbunni við steininn þannig að í þessari ferð náði ég að landa þremur bleikjum, 1 pund, 1,5 – 2 pund og einum urriða 1,5 – 2 pund. Ég settist hjá veiðimanninum við steininn. Hann var búinn að landa einum myndalegum urriða. Ég held að það sé engin spurning um það. Urriðanum er að fjölga í vatninu. Við bílinn hitti ég síðan strákana sem voru að veiða á staðnum sem ég á inni. Þeir náðu einum tíu bleikjum á land.