Tangavatn 7. ágúst 2021


Þessi vötn gefa fáa fiska

Ekki eru það veiðimöguleikarnir sem draga okkur í vötnin á Holtavörðuheiðinni. Vötnin þar eru ekki mörg og gefa fáa fiska. Þangað förum við samt öðru hvoru og eigum alltaf góðar stundir en sjaldnast fáum við fisk. Ef ekki væri nálægðin við bústaðinn okkar þá færi ég sennilega aldrei í þessi vötn. Vötnin sem um ræðir eru Tangavatn, Djúpavatn, Gíslavatn og Holtavörðuvatn.

Við hjónin vorum önnum kafin við smíði geymsluskúrs þessa daga í Brautarlæk. Steyptum niður undirstöðurnar og vorum byrjuð á að smíða gólfgrindina. Veðrið var stillt og okkur langaði að verðlauna okkur fyrir dugnaðinn með veiðiferð. Eiginkonan nennti ekki að fara langt þannig að við fórum bara í næsta vatn sem er Tangavatn.

Fyrir framan helgarverkefnið klár í veiðiferð á Holtavörðuheiðina.

Það hefur óvenjulega oft verið logn í framdal Norðurárdals í sumar. Við höfum virkilega fengið að kenna á því. Höfum óþægilega oft verið bitin af þeim leiðinda nýbúa sem lúsmýið er. Þetta kvöld var logn eins og svo oft áður í sumar. Tangavatnið heilsaði okkur spegilslétt. Öðru hvoru sáum við uppítökur þannig að það var einhver fiskur á ferð.

Séð til norðurs yfir vatnið. Ef gengið er áfram til norðurs vestan megin við vatnið kemur maður að Djúpavatni. Næsta sumar ætla ég að skoða það vatn.

Fátt er til frásagnar af veiðinni. Hún var einfaldlega engin. Reyndar náði Guðrún að landa einni 200 gramma bleikju og öðru hvoru sá hún pennastórar bleikjur elta spúninn. Ég hins vegar kastaði flugunni í þrjá og hálfan tíma án þess að verða var.